Saddam sagður hafa grafið holu og falið sig

Saddam Hussein gróf holu ofan í jörðina í kjallaranum þar sem hann hafðist við og faldi sig ofan í holunni þegar bandarískir hermenn höfðu umkringt húsið sem hann var í. „Bandarísku hermennirnir þurftu að grípa skóflur og moka hann upp úr holunni,“ segir Entifadh Qanbar, talsmaður Ahmads Chalabis, sem á sæti í íraska framkvæmdaráðinu.

Qanbar, sem byggir frásögn sína á fregnum frá bandaríska hernámsliðinu, segir að Saddam hafi verið skeggjaður þegar hann var handsamaður. Hermennirnir hafi tekið af honum ljósmyndir, rakað af honum skeggið og ljósmyndað hann á ný áður en þeir gerðu DNA-prófið. „DNA-prófið staðfestir 100% að þetta er Saddam Hussein,“ bætti hann við.

Qanbar segir að Saddam hafi verið handtekinn í bæ sem er mjög nálægt Tíkrit, heimbæ Saddams sem er um 160 km norður af Bagdad.

Í fregnum SkyNews segir að Saddam hafi grennst mikið og látið á sjá. Hann hafi verið með sítt grátt skegg og því hafi hermennirnir ekki verið vissir um hvort þeir væru með einræðisherrann fyrrverandi. Eftir að hafa fundið ör á líkama hans sem þeir vissu að Saddam væri með, hafi verið ákveðið að gera DNA-próf og að það hafi staðfest að maðurinn væri í raun Saddam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert