Það hefur lengi verið fullyrt að það sé reimt í Hampton Court höllinni í suðvesturhluta Lundúna og sá orðrómur hefur nú fengið byr undir báða vængi. Varðmenn í höllinni urðu í október nokkrum sinnum varir við að eldvarnahurð hafði verið skilin eftir opin og þegar myndir úr öryggismyndavél voru skoðaðar kom skyndilega í ljós vera, sem virtist vera klædd í miðaldabúning, og lokaði dyrunum. Á meðfylgjandi mynd, sem höllin sendi frá sér í dag, sést þessi vera í dyragættinni. Hampton Court höllin var byggð á 16. öld og var m.a. dvalarstaður Hinriks 8 Bretakonungs.