Sæstrengurinn FARICE tekinn formlega í notkun

Kort af Farice-strengnum.
Kort af Farice-strengnum.

Sæstrengurinn FARICE, sem liggur á milli Íslands og Skotlands og um Færeyjar, var tekinn í formlega í notkun í dag. Félagið Farice hf. á og rekur strenginn en að félaginu standa Síminn, Og Vodafone, íslenska ríkið, FøroyaTele og fleiri aðilar. Segir félagið, að strengurinn marki þau tímamót að í fyrsta skipti sé landið tvítengt um aðskilinn ljósleiðara austur og vestur um haf. Þetta þýði mun meira öryggi en áður þegar síma- og tölvunotendur urðu að treysta á aðeins einn ljósleiðara, CANTAT-3, og varasamband um gervihnetti í öllum samskiptum sínum við útlönd. Fjarskiptafyrirtæki geta nú nýtt samhliða báða strengina, þannig að þótt sambandið rofni á öðrum strengnum veldur það nánast engri röskun á þjónustu.

Félagið segir einnig, að FARICE marki ekki síður þáttaskil í fjarskiptasögunni þar sem hann sé fyrsta fjarskiptatenging Íslands við útlönd í meirihlutaeigu Íslendinga sjálfra. Þá eyði hann þeirri óvissu sem verið hafi um framtíð CANTAT-3 sæstrengsins vegna eldri tækni sem hann byggi á og fjárhagslegra vandræða Teleglobe, umsjónaraðila reksturs strengsins.

Fjarskiptaumferð, sér í lagi gagnaumferð, Íslendinga við útlönd hefur tvöfaldast ár hvert undanfarin ár. Að óbreyttu var því ljóst að flutningsgeta Íslendinga um CANTAT-3 yrði fullnýtt innan þriggja til fimm ára. Hámarksflutningsgeta FARICE er 720 Gb/s. Fyrst í stað verður þó einungis hluti þeirrar flutningsgetu virkjaður eða 10 Gb/s milli Íslands og Skotlands og annað eins milli Skotlands og Færeyja. Heildarflutningsgeta CANTAT-3 milli Evrópu og Íslands er 2,5 Gb/s en Íslendingar ráða þó einungis yfir hluta hennar. Gagnaflutningsgeta landsmanna allt að því þúsundfaldast þegar FARICE hefur verið fullstækkaður.

Undirbúningur að lagningu FARICE hófst árið 1999. Heildarfjárfesting í hinu nýja sæstrengskerfi er um 45 milljónir evra, eða rúmir 4 milljarðar króna. Hafist var handa við lagningu sæstrengsins í lok júní sl. í bænum Castletown í Dunnet Bay í Skotlandi þar sem hann er tekinn á land. Síðan var strengurinn lagður frá Skotlandi norður fyrir Færeyjar með tengingu inn til Funningsfjarðar í Færeyjum. Sæstrengurinn var síðan dreginn á land á Seyðisfirði í september.

Strengurinn er alls 1407 km að lengd en þar af er vegalengdin frá Seyðisfirði til Dunnet Bay um 1210 km, og frá úttaki við Færeyjar eru um 197 km til Funningsfjarðar. Hin eiginlega ljósleiðaratenging, sem endar í Reykjavík, Þórshöfn og Edinborg, er hins vegar um 3000 km. Munar þar um landleiðirnar á Íslandi, í Færeyjum og í Skotlandi en þær eru og verða leigðar af þarlendum fjarskiptafyrirtækjum.

Farice hf. mun selja þjónustu sína í heildsölu til fjarskiptafyrirtækja sem síðan sjá um smásöluna. Fyrirtækið segir, að áætlanir um rekstur og afkomu taki mið af því að FARICE verði á tímabilinu 20014-2009 meginflutningsleið fjarskipta landsmanna og að CANTAT-3 sambönd, sem Farice verði sér úti um með kaupum af Og Vodafone, Símanum og Teleglobe, notuð sem varaleiðir. Að þessum tíma liðnum er áætlað að þörf verði fyrir annan sæstreng með sambærilega flutningsgetu og FARICE, til að tryggja öryggi sambandanna og næga flutningsgetu. Eftir sem áður mun Farice áfram hafa möguleika á að reka takmarkaða flutningsgetu á CANTAT-3 eða eins lengi og sá strengur verður í notkun en ákvörðun um það er í höndum eigenda strengsins.

Fyrsti sæsímastrengurinn var lagður 28. ágúst 1850. Sá strengur lá á milli breska strandbæjarins Dover og frönsku strandborgarinnar Calais. Um strenginn fór aðeins ein ritsímarás. Fyrsti nothæfi ritsímastrengurinn yfir Atlantshafið var lagður árið 1868, milli Bretlands og Kanada. Árið 1956 var TAT-1 lagður en hann var fyrsti strengurinn fyrir talsíma sem lá þvert yfir Atlantshafið og bar hann 35 símalínur. Árið 1986 var strengurinn UK-Belgium 5 lagður. Hann var fyrsti sæstrengurinn sem byggði á ljósleiðaratækni og bauð upp á 12.000 línur. Flutningsgeta FARICE er hins vegar á sama mælikvarða yfir 11 milljón línur.

Fyrsti sæstrengurinn til Íslands var lagður til Seyðisfjarðar árið 1906, einnig tengdur frá Skotlandi um Færeyjar, og var hann notaður fyrir ritsíma. Fyrsti talsímastrengurinn til Íslands var SCOTICE. Hann var 24 lína strengur sem lagður var 1962 frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands. Ári síðar kom ICECAN með 20 rásir og lá hann á milli Íslands og Kanada um Grænland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert