Taívan er einn þéttbýlasti staður á jörðinni og þar er ekki mikið pláss fyrir nýja kirkjugarða. Bandarískt fyrirtæki hefur nú boðið fram lausn á þessum vanda: Skjóta líkamsleifunum út í geiminn!
Fyrirtækið Celestis Inc., sem hefur höfuðstöðvar í Texas, tilkynnti í morgun að gerður hefði verið samningur við Baushan Enterprise, sem er ein stærsta útfararstofa á Taívan, um að bjóða Taívanbúum upp á geimútför.
Robert Tysor, forstjóri Celestis, útskýrði málið þegar samningarnir voru undirritaðir í dag. Hann sagði að eftir líkbrennslu sé askan sett í sérstakt álhylki á stærð við varalit. Hylkinu er síðan skotið út í geim með eldflaugum sem fara frá Bandaríkjunum og Rússlandi. Hylkin eru síðan losuð frá eldflauginni og hringsóla um jörðina; hver hringur tekur um 90 mínútur, en á endanum fara hylkin inn í lofthjúpinn og brenna þar upp. Hylkin geta hins vegar verið árum saman í geimnum.
Yeh Feng-chiang, framkvæmdastjóri Baushan, sagði við blaðamenn: „Alltaf þegar tunglið kemur upp getið þið horft til himins og minnst látinna ástvina."
Geimútför á að kosta jafnvirði um 850 þúsund krónur, eða það sama og meðalútför á Taívan. Einnig getur fólk sent ösku ástvina sinna til tunglsins fyrir 2,1 milljón króna.
Tysor segir að boðið hafi verið upp á þessa þjónustu í Japan undanfarin tvö ár.