Bóndi á bænum Pálshúsum í Garðabæ skaut hund, sem hljóp inn á landareign hans í gær en þar er hann með kindur. Pálshús er innan bæjarmarka Garðabæjar. Að sögn lögreglunnar í Hafnarfirði, sem rannsakar málið, urðu vitni að atburðinum. Hundaeigendur hafa oft viðrað hunda sína á opnu svæði sem er við landareignina og hefur komið fyrir að hundar hafi áður farið inn á tún bóndans og hann orðið pirraður yfir því.
Lögreglan segir þetta mjög alvarlegt atvik og varði við lög um ólöglega meðferð skotvopna. Hún segir að bóndinn hafi þegar viðurkennt verknaðinn, en málið er enn í rannsókn.
Heimilishundurinn, sem varð fyrir skotinu og drapst, var af tegundinni Boxer og var hann jarðaður í gær, að sögn lögreglu.
Bærinn Pálshús stendur við bæjarmörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar, skammt frá Hrafnistu í Hafnarfirði.