Sektaður fyrir brot gegn blygðunarsemi pítsusendla

Rúmlega þrítugur maður hefur verið dæmdur til að greiða 140.000 krónu sekt í ríkissjóð fyrir brot gegn blygðunarsemi fjögurra 18-23 ára manna. Þótti dómara framferði hans gagnvart þeim ógeðfellt og bera vott um sérkennilegar hvatir.

Í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur segir að maðurinn, sem er fæddur 1972, hafi með háttsemi sinni valdið mönnunum nokkurri vanlíðan að ósekju.

Brotin framdi hann í fyrra á heimili sínu þar sem hann bjó í einu herbergi í kjallara. Í öllum tilvikum sat hann eða stóð nakinn í herbergi sínu og fróaði sér er pítsusendlar færðu honum veitingar er hann hafði pantað sér. Bað hann þá ýmist að bíða og horfa á sig uns yfir lyki, og bauð sumum þeirra borgun fyrir.

Greiði maðurinn ekki sektina innan fjögurra vikna kemur 28 daga fangelsi í hennar stað. Þá var maðurinn dæmdur til að borga allan sakarkostnað, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert