Arsenal varð enskur meistari í knattspyrnu í 13. sinn í dag eftir að liðið gerði jafntefli við Tottenham, 2:2, á White Hart Lane. Þar með hefur Arsenal 82 stig í efsta sæti deildarinnar þegar fjórir leikir eru eftir. Chelsea á ekki möguleika á að ná Arsenal, því liðið er með 72 stig og á aðeins þrjá leiki eftir.
Patrik Viera og Robert Pires skoruðu fyrir Arsenal í fyrri hálfleik í dag en Jamie Redknapp og Robbie Keane gerðu mörk Tottenham. Keane skoraði jöfnunarmarkið á næstsíðustu mínútu úr vítaspyrnu. Spyrnan var afar umdeild en hún var dæmd eftir að Jens Lehman, markvörður Arsenal, hrinti Keane, en Keane svaraði fyrir sig með því að hrinda Lehman mjög hressilega. Eftir nokkra rekistefnu hjá dómurum leiksins var ákveðið að dæma vítaspyrnu. Markið kom hins vegar ekki í veg fyrir að Arsenal fengi a.m.k. eitt stig sem liðið vantaði til þess að vinna enska meistaratitilinn.