Danir eru afar spenntir að fylgjast með brúðkaupi Friðriks krónprins og ástralskrar unnustu hans, Mary Donaldson, sem fram fer 14. maí næstkomandi. Eftirvænting þjóðarinnar er slík að margir hafa afpantað viðtöl við lækna, í tengslum við aðgerðir, sem áttu að fara fram þennan dag og eru yfirmenn sjúkrahúsa í Kaupmannahöfn fremur óhressir með þetta. „Maður veltir því fyrir sér hvort fólk sé raunverulega veikt ef það afboðar viðtali við lækni af því að það langar til að fylgjast með brúðkaupinu,“ segir Kim Bo Christensen, yfirhjúkrunarfræðingur á Bispebjergssjúkrahúsinu.
„Við eru að reyna allt sem við getum til þess að minnka biðlista eftir skoðunum og aðgerðum og þegar við biðjum sjúklinga að koma í viðtal 14. maí segja þeir okkur að þeir komist ekki,“ sagði Christensen og ætti við að vandamálið væri til staðar á öllum sjúkrahúsum í borginni.
Dönsk yfirvöld hafa gefið opinberum starfsmönnum frí hálfan daginn 14. maí svo þeir geti fylgst með brúðkaupinu og segir Christensen að þetta hafi hvatt sjúklinga til þess að afboða tíma hjá læknum. „Þegar ríkisstarfsmönnum hefur verið gefið frí heldur fólk að það sé allt í lagi,“ segir Christensen.
Friðrik og Mary, sem er 32 ára lögfræðingur, kynntust á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu, árið 2000.