Slökkviliðsmenn björguðu páfagauki frá glötun

Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins var kallað út í há­deg­inu að Bónusversl­un í Iðufelli í Breiðholti. Ekki var um eld að ræða held­ur hafði sést til lít­ils páfa­gauks uppi á þaki versl­un­ar­hús­næðis­ins. Glögg­ur borg­ari hafði lesið um týnd­an páfa­gauk á Net­inu og fannst páfa­gauk­ur­inn á þak­inu lík­ur hinum týnda fugli, sem saknað var úr Hraun­bæn­um í Árbæj­ar­hverfi.

Þegar slökkvilið kom á vett­vang hafði fugl­inn flögrað yfir á sval­ir á 3. hæð fjöl­býl­is­húss í næsta ná­grenni. Slökkviliðsmenn reistu stiga upp við blokk­ina og gerði það björg­un­ar­störf auðveld­ari að sval­irn­ar voru glerjaðar. Tókst björg­un­arliðinu að króa fugl­inn af inni á svöl­un­um með því að loka þeim. Eig­andi fugls­ins, sem var mætt­ur á vett­vang björg­un­ar­inn­ar, staðfesti að um hinn týnda páfa­gauk væri að ræða.

Að öðru leyti hef­ur verið ró­legt hjá slökkviliðsmönn­um í dag, að því er stöðvar­stjóri á Slökkvistöðinni í Skóg­ar­hlíð tjáði Frétta­vefn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert