Slökkviliðsmenn björguðu páfagauki frá glötun

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í hádeginu að Bónusverslun í Iðufelli í Breiðholti. Ekki var um eld að ræða heldur hafði sést til lítils páfagauks uppi á þaki verslunarhúsnæðisins. Glöggur borgari hafði lesið um týndan páfagauk á Netinu og fannst páfagaukurinn á þakinu líkur hinum týnda fugli, sem saknað var úr Hraunbænum í Árbæjarhverfi.

Þegar slökkvilið kom á vettvang hafði fuglinn flögrað yfir á svalir á 3. hæð fjölbýlishúss í næsta nágrenni. Slökkviliðsmenn reistu stiga upp við blokkina og gerði það björgunarstörf auðveldari að svalirnar voru glerjaðar. Tókst björgunarliðinu að króa fuglinn af inni á svölunum með því að loka þeim. Eigandi fuglsins, sem var mættur á vettvang björgunarinnar, staðfesti að um hinn týnda páfagauk væri að ræða.

Að öðru leyti hefur verið rólegt hjá slökkviliðsmönnum í dag, að því er stöðvarstjóri á Slökkvistöðinni í Skógarhlíð tjáði Fréttavefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert