Írakar, sem segjast hafa verið fangar í Abu Ghraib fangelsinu utan við Bagdad, lýstu í dag hvernig þeim var misþyrmt en mennirnir segjast þekkja sjálfa sig á myndum, sem birst hafa í fjölmiðlum um allan heim að undanförnu. Meðal annars er fullyrt að bandarískir fangaverðir hafi haft kynmök við kvenkyns fanga. Tímaritið The New Yorker birti í dag fleiri myndir af föngum sem sæta misþyrmingum bandarískra hermanna í fangelsinu.
Tímaritið Time hefur í dag eftir einum fanganum, Haider Sabbar Abed al-Abbadi, að hann og sex aðrir fangar hafi talið að refsa ætti þeim fyrir að slagsmál brutust út milli þeirra. Þeir voru teknir út sætt refsingu. Þeir voru reknir inn í herbergi og sagt að afklæðast. Al-Abbadi sagði að hann væri maðurinn, sem sést hefur á mynd nakinn og kvenkyns hermaður bendir á kynfæri hans. Hann segir að einnig hafi verið teknar myndir af honum og fleiri nöktum föngum sem liggja í einni kös. Segist hann hafa séð blossa frá leifturljósi myndavélanna gegnum hettu sem dregin hafði verið yfir höfuð hans.
Hann segist hafa verið í 9 mánuði í haldi Bandaríkjamanna en aldrei ákærður og aldrei yfirheyrður.
Nabil Shakar Abdul Razaq al-Taiee, 54 ára, sagði við Time að hann hefði séð bandaríska hermenn berja fanga síðast í mars. Einn þeirra sem sætti þannig misþyrmingum var maður sem þjáist af geðsjúkdómi en hann var geymdur í gámi í nokkra daga.
Annar maður, Mohammed Unis Hassan, segist hafa verið handtekinn fyrir þjófnað og hafður í haldi í sjö mánuði. Hann segir að hann hafi séð fangavörð hafa kynmök reglulega við kvenkyns fanga á ganginum utan við klefa hans.
Mohammed segist hafa verið barinn fyrir að reyna að fela sígarettur og eitt sinn hafi hann verið handjárnaður við klefarimlana og potað hefði verið í augu hans þannig að hann sá illa í þrjá mánuði.
Annar fyrrverandi fangi segir að hann hafi þrívegis verið bundinn á höndum og fótum og hengdur upp í krók.
Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hafði eftir rannsóknarmönnum innan Bandaríkjahers, að fangar í Abu Ghraib hafi reglulega verið barðir og sparkað í þá og herlögreglumenn hefðu m.a. hoppað á fótum þeirra.