Die Welt. Um 1.400 spánskir hermenn voru við störf í Írak.">

Aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu gagnrýnir brotthvarf Spánverja frá Írak

Ítalskur hermaður á götu í Nasiriyah í Írak.
Ítalskur hermaður á götu í Nasiriyah í Írak. AP

Gianfranco Fini, aðstoðarforsætisráðherra Ítalíu, segir að brotthvarf spænskra hersveita frá Írak sé stærsti sigur hryðjuverkamanna frá því að árásirnar á Bandaríkin riðu yfir hinn 11. september árið 2001. "Hryðjuverkamennirnir náðu fram markmiðum sínum með því að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda á Spáni," segir Gianfranco Fini í samtali við þýska dagblaðið Die Welt. Um 1.400 spánskir hermenn voru við störf í Írak.

Spurður um örlög þriggja ítalskra gísla, sem eru í haldi íraskra vígamanna, sagði Fini að stjórnvöld beittu öllum ráðum til þess að tryggja lausn þeirra. "Við höfum hins vegar engan áhuga á því að semja við hryðjuverkamenn og verða við kröfum þeirra," sagði Fini. Mannræningjarnir hafa krafist þess að um þrjú þúsund ítalskir hermenn hverfi frá Írak.

Þá segir Fini að þrátt fyrir að Þjóðverjar og Ítalir hafi verið á öndverðum meiði í málefnum Íraks séu enn mikil tengsl á milli ríkjanna. "Það er mikilvægt að ríkin komist að sameiginlegri niðurstöðu," sagði Fini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert