Forsætisráðherra segir forsetann vanhæfan ætli hann að neita að staðfesta fjölmiðlalög

Davíð Oddsson, forsætisráðherra.
Davíð Oddsson, forsætisráðherra.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í samtali við Sjónvarpið í kvöld, að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, væri algerlega vanhæfur ef hann ætlaði að neita að staðfesta lög um eignarhald á fjölmiðlum, m.a. vegna þess að forstjóri Norðurljósa sé formaður stuðningsmannafélags forsetans. Þá sagðist Davíð ekki vita hvernig ætti að útskýra fjarveru forsetans frá brúðkaupi Friðriks krónprins og Mary krónprinsessu í Danmörku fyrir dönsku ríkisstjórninni og konungsfjölskyldunni.

Í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann, sagði Davíð að það væri óskiljanlegt að Ólafur Ragnar hefði ákveðið að fara ekki til Danmerkur því ekkert á Íslandi ætti að rugla forsetann. „Þessi undarlega heimkoma eftir 14 daga flug og blaðamannasirkus einhver eru algerlega óskiljanleg því hér verða engin mál afgreidd sem hann er að vísa til, í þessari viku eða hinni næstu. Brúðkaupið stendur ekki í 10-20 daga; hann var búinn að lofa þeim að koma. Við þurfum einhvern veginn, ríkisstjórnin, að útskýra fyrir dönsku ríkisstjórninni og konungsfjölskyldunni hvað hafi gerst. Við vitum ekki hvað við eigum að segja nákvæmlega, það botnar enginn í þessu," sagði Davíð.

Davíð sagði forsetann ekki hafa haft samband við hann, utanríkisráðherra eða forseta Alþingis og spurt um þingstörfin. „Hann þyrfti ekki annað en horfa á sjónvarpið þar sem að ræðumenn í annarri umræðu eru tilkynntir sem tala hver um sig í 1-2 klukkustundir, þá sæi hann það að að meira segja í næstu viku verður ekki hægt að klára þetta."

Davíð sagði að handhafar forsetavalds hefðu staðfest 8-9 lög meðan forsetinn var í Mexíkó en engin fyrirspurn hefði komið frá forsetaskrifstofunni um hvaða lög hefðu verið staðfest.

„Svo þetta er einhver óskiljanleg vitleysa. Ég trúi því ekki að hann sé kallaður heim af einhverjum aðilum úti í bæ. Það er reyndar búið að segja það, ekki við okkur, ekki við mig, ekki við utanríkisráðherra, ekki við forseta þingsins, að forsetinn sé að hugleiða að staðfesta ekki lög frá þinginu en það virðist vera búið að segja það við Dagblaðið og Stöð 2 og Fréttablaðið því þar kemur þetta allt saman fram, en ekki við réttkjörin stjórnvöld í landinu. Þetta er allt saman óskiljanlegt. Forsetinn getur ekki verið að ganga erinda eins auðhrings, hann er forseti allrar þjóðarinnar, það gefur augaleið," sagði Davíð.

Davíð sagði aðspurður að engin togstreita væri á milli forsetaembættisins og Alþingis og hefði ekki verið í 60 ár. Alþingi ynni sín verk samkvæmt þingræðisreglu.

„Og úr því við erum að tala um Danadrottningu og brúðkaupið. Ég horfði á viðtal við Danadrottningu þar sem hún var spurð um það hvort hún myndi beita neitunarvaldi sem hún hefði við lög. Hún starði á fjölmiðlamanninn og og sagði: Ertu frá þér? Það væri árás á danska þingið. Hann hefði kannski getað farið út og rætt þetta við Danadrottningu," sagði Davíð.

Þegar Jóhanna Vigdís spurði Davíð hvort hann héldi að forsetinn muni ekki staðfesta lögin, sagðist hann ekki hafa hugmynd um það en í sínum huga væri það klárt að forsetinn gæti ekki synjað þeim af tveimur ástæðum. Annars vegar þeirri að lögmenn deildu um það hvort að forsetinn geti synjað lögum. „Nú ef að hin túlkunin er rétt... að þetta sé persónulegt vald þjóðhöfðingjans að geta synjað, þá vakna allar vanhæfisreglur sem við búum við í þessu landi. Ef einhver er vanhæfur til þess að taka á þessu máli þá er það Ólafur Ragnar Grímsson. Forstjóri Norðurljósa er formaður stuðningsmannafélags Ólafs Ragnars Grímssonar. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, sá sem seldi, hafi verið aðal fjárhagslegur stuðningsmaður forsetans. Það hefur komið fram að forsetinn bauð jafnan til kvöldverðar þegar Stöð 2 var að taka lán... Dóttir forsetans vinnur hjá Baugi. Þannig að ef að einhver er algerlega vanhæfur til slíkra hluta, þá er það forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Þannig að á hvorn veginn sem lögfræðitúlkunin liggur þá er algerlega ljóst að hann getur ekki synjað þessum lögum," sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert