Davíð og Ólafur Ragnar áttu fund í dag

Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson áttu fund á Bessastöðum …
Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson áttu fund á Bessastöðum í dag. Þessi mynd var tekin þar á síðasta ári.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Davíð Oddsson, forsætisráðherra, áttu fund í morgun. Davíð skýrði fréttamönnum frá þessu í dag. Sagði hann að þeir Ólafur Ragnar hefðu setið lengi á Bessastöðum og átt ágætt samtal „eins og við gerum alltaf þó að við skiptust á skoðunum," sagði Davíð. Hann sagði að alger hefð væri fyrir því, og þeir hefðu báðir staðið mjög fast á því, að þeir nefndu engin atriði af þeim sem farið hefðu þeim á milli.

Davíð sagði að fundir hans með forseta hefðu orðið strjálli frá því embætti forsetans flutti úr stjórnarráðinu í Sóleyjargötu 1. Áður hefðu forsætisráðherra og forseti átt vikulega fundi sem stóðu í hálftíma. „Nú eigum við sjaldnar fundi eftir að forseti fékk annan samastað en hann stendur yfirleitt lengur. Þessi fundur í dag var í um klukkutíma," sagði Davíð.

Þegar Davíð var spurður hvernig samkomulag þeirra Ólafs Ragnars væri sagði hann að þeir hefðu þekkst frá því hann var 18 ára þegar þeir spiluðu badminton saman. „Síðan höfum við þekkst, með svona hléum, þannig að það hefur alltaf verið ágætt," sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka