Bandaríkjamenn ætla að rannsaka árás á þorp í Írak

Mahdi Nawaf sýnir myndir af ættingjum sínum, sem létu lífið …
Mahdi Nawaf sýnir myndir af ættingjum sínum, sem létu lífið í loftárásinni í gær. Á myndunum eru hjón og sex börn þeirra á aldrinum 3 til 10 ára, sem voru borin til grafar í morgun. AP

Bandaríkjaher mun rannsaka ásakanir um að hersveitir hafi í gær gert loftárás á þorp í Írak þar sem brúðkaupsveisla fór fram og tugir manna hafi látið lífið í árásinni. Mark Kimmitt, undirhershöfðingi, sagði í morgun að sumar þeirra ásakana sem bornar hefðu verið fram, væru þess eðlis að málið yrði rannsakað nánar.

Kimmitt fullyrti hins vegar, að árásin hefði verið byggð á upplýsingum um að vopnaðir uppreisnarmenn hefðu safnast saman á afskekktu svæði á eyðimörkinni nálægt landamærum Sýrlands.

„Við höfðum upplýsingar sem leiddu til þess að við hófum hernaðaraðgerðir í eyðimörkinni miðri," sagði hann og bætti við að vopn, svo sem vélbyssur og herrifflar hefðu fundist á svæðinu.

Íbúar á svæðinu segja, að yfir 40 manns hafi látið lífið í árásinni, þar á meðal söngvari sem var að skemmta í brúðkaupinu og bróðir hans, sem lék undir. Á sjónvarpsmyndum sást þegar verið var að vefja lík lík, meðal annars af börnum, í ábreiður og koma þeim fyrir á vörubílspöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert