Rúmlega sex af hverjum tíu verslunum og sölustöðum tóbaks í Hafnarfirði seldu unglingum tóbak í könnun sem fram fór á vegum forvarnarnefndar Hafnarfjarðar í bænum fyrir viku.
Gerðir voru út tveir unglingar úr 10. bekk grunnskólans og fengu þeir keypt tóbak á 18 sölustöðum af 29, en 4 staðir seldu ekki tóbak eða voru lokaðir þegar könnunin fór fram.
Unglingarnir fóru á sölustaðina undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar. Í fyrri könnunum voru gerðir út 14 ára unglingar en 16 ára að þessu sinni.
Á árunum 1996-2001 dró jafnt og þétt úr ólöglegri tóbakssölu til unglinga 18 ára og yngri í Hafnarfirði en frá í febrúar 2002 hefur hún aukist á ný.
Fram kemur í upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ, að nýlegar rannsóknir á lífsstíl hafnfirskra ungmenna sýni að reykingar þeirra eru að aukast, þvert á þróunina á landsvísu.