„Þetta er auðvitað tímamótaákvörðun, það eru allir sammála um það,“ sagði Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins um þá ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir lög um eignarhald á fjölmiðlum. Björg segir að hvergi liggi fyrir hvernig væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu verði háttað. „26. grein stjórnarskrárinnar kveður á um að það skuli kjósa um að synja frumvarpinu eða samþykkja og ég býst við að sú spurning hljóti að verða lögð fram fyrir landsmenn með þessum hætti,“ sagði Björg.
Hún segir að hvað varði framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar, séu ýmsir kostir í stöðunni. Hægt sé að setja sérstök lög um framkvæmdina, eða beita gildandi kosningalögum, sem gilda um kjör forsetans eða Alþingiskosningar. „Það er í sjálfu sér ekkert svo flókið að koma því við,“ segir Björg.
Hún segist telja ákjósanlegast að Alþingi setji lög um atkvæðagreiðsluna, en ekki sé endilega forsenda fyrir því, heldur þurfi að meta það í framhaldinu. „Ef Alþingi kæmi saman af þessu tilefni, myndi það væntanlega setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Björg.
Hvað dómstólana varðar segir Björg að þeir hafi ekkert um málið að segja á þessu stigi og ekki fyrr en hugsanlega verði höfðað mál fyrir þeim. Verði lögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu muni málið væntanlega ekki ná lengra og fari væntanlega aldrei fyrir dómstólana. „Dómstólarnir eiga eftir sem áður úrskurðarvald um það hvort þessi lög samrýmast stjórnarskránni. Þjóðaratkvæðagreiðslan breytir engu um að málið getur komið til dómstóla síðar,“ segir Björg.
Hún segir að um tímamótaákvörðun sé að ræða. „Þarna er þessu ákvæði beitt í fyrsta skipti og það sýnir sig hversu mikið vantar upp á að stjórnarskráin mæli fyrir um þetta. Hún kannski botnar ekki alveg málið um það til að mynda hvernig atkvæðagreiðslan eigi að fara fram og fleira. Það leiðir ef til vill til þess að menn vilja endurskoða þetta stjórnarskrárákvæði, eða breyta því eða kveða skýrar á um hvenær forseti getur synjað lagafrumvarpi staðfestingar og fleira,“ segir Björg. „Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu og það er nokkuð sem menn íhuga áreiðanlega í framhaldinu,“ bætir hún við.