Davíð: Ekki komist hjá því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, var gestur í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. …
Davíð Oddsson, forsætisráðherra, var gestur í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld. Myndin er tekin af útsendingu Sjónvarpsins. mbl.is

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í viðtali við Kastljós Sjónvarpsins í kvöld, að ekki yrði hjá því komist að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að forseti Íslands, synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar í gær. Davíð sagðist telja þau rök Þórs Vilhjálmssonar, lagaprófessors, að forsetinn hafi ekki þetta neitunarvald og sé því að brjóta stjórnarskrána, sterk. „Þó ég telji rök Þórs sterk tel ég að miðað við það sem kennt hefur verið verðum við að telja að þessi formlega heimild sé í gildi,“ sagði Davíð meðal annars í viðtalinu.

Spurður um viðbrögð sín við ákvörðun forsetans, sagði Davíð að ekki væri langt síðan þetta gerðist. Sagði Davíð að hann hefði enn ekki fengið frumvarpið í hendurnar frá forseta, en að Ólafur hefði hringt í sig hálftíma áður en blaðamannafundur hans hófst á Bessastöðum í gær og skýrt frá ákvörðun sinni. Hefði símtal þeirra staðið yfir í um 20 sekúndur.

Davíð sagðist útaf fyrir sig ekki ánægður með ákvörðun forseta, en sagðist ekki vilja blanda persónum í málið. „Ég er ekki ánægður með að þessu umdeilda ákvæði sé beitt af ekki stærra tilefni,“ sagði Davíð. Hann sagði að fjölmiðlalögin væru ekki stórkostlegt hagsmunamál fyrir fólkið í landinu, eins og mál á borð við dauðarefsingu og inngöngu í Evrópusambandið væru. Ákvörðun Ólafs Ragnars hefði komið sér og þjóðinni á óvart.

Notaði hálfgerða frasa

Davíð sagði að Ólafur Ragnar hefði á fundinum með blaðamönnum í gær, ekki gert grein fyrir því hvað hefði ráðið afstöðu hans. „Hann orðaði það eitthvað á þá leið að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar, eða eitthvað svoleiðis. Þetta er nú eitthvað sem ég verð bara að segja með fullri virðingu að eru hálfgerðir frasar,“ sagði Davíð.

Spurður um hvers vegna forsetinn hefði valið þetta mál til að synja staðfestingar sagði Davíð ljóst að eftir því hefði verið kallað af hálfu Norðurljósa. Einnig hefðu fjölmiðlar kallað eftir því. Davíð vildi ekki gera mikið úr undirskriftalistanum, sem sendur var forseta. „Það fór þarna fram ákveðin kennitölusöfnun, en hún er leyndarmál sem enginn fær að sjá og það hefur aldrei gerst varðandi neina undirskrifasöfnun á Íslandi,“ sagði Davíð.

Þá sagði Davíð að í þessu máli hefði þingmeirihluti sætt óvenju hatrömmum árásum fjölmiðlasamsteypu. Að það skyldi svo gerast, eftir heilan mánuð í þinginu að málið væri ýft upp á ný, hlyti að koma mönnum á óvart.

„Málið hefur legið fyrir í heilan mánuð, forsetinn vissi hvernig málið var þegar það var lagt fram, öllum ber saman um að það hafi mildast í meðförum þingsins,“ sagði Davíð. Sagði hann að Ólafi Ragnari hefi verið í lófa lagið að hafa samband við þingið vegna málsins, en Alþingi hefði verið að störfum í heila viku eftir að málið var samþykkt. Hann hefði bersýnilega verið búinn að ákveða þetta fyrir og hefði getað haft samband við þingið, svo til að mynda væri hægt að undirbúa lög fyrir þjóðaratkvæði.

Ekki tímamót í íslenskri stjórnskipan

Davíð sagði að menn hefðu kallað ákvörðun Ólafs tímamót í íslenskri stjórnskipan, en hann vildi ekki kalla þetta svo virðulegu nafni. „Ef það væri nú svo hefði ég haldið að slíkur atburður hefði átt að gerast á ríkisráðsfundi þar sem ráðherrarnir hefðu haft tóm til að segja skoðun sína á málinu og færa hana til bókar, en ekki á blaðamannafundi.“

Hvað 26. grein stjórnarskrárinnar varðar, sagði Davíð að enginn hefði tekið synjunarvald forseta nógu hátíðlega undanfarin 60 ár, enginn þingmaður og engin ríkisstjórn, til þess að lög hefðu verið sett. „Það datt engum í hug að þessu ákvæði yrði beitt,“ sagði Davíð. Hann sagði að Ólafur Ragnar Grímsson hefði sjálfur sagt að þetta væri dauður bókstafur.

Hann sagðist deila þeirri skoðun með Halldóri Ásgrímssyni að finna yrði flöt á því að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna. „Við ákváðum í dag að reyna að fá góða og vísa menn til að fara á næstu dögum yfir þessi mál og skila okkur greinargerð um það.“ Davíð sagði að út af fyrir sig lægi svolítið á. „Það segir í stjórnarskrárákvæðinu, 26. greininni, að það skuli gera þetta svo fljótt sem auðið er.“

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar komu á óvart

Davíð sagðist undrast það að stjórnarandstaðan fagnaði ákvörðun forseta að fara á móti þinginu. „Það hélt ég að enginn þingmaður myndi gera,“ sagði Davíð.

Sagði Davíð að miklir hagsmunir væru í húfi hjá einu fyrirtæki í málinu. Fyndist honum allt benda til þess að forsetinn væri að ganga erinda þess í málinu, því ekki væri hann að ganga erinda þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin mun ekki beita sér í málinu

Hann sagði að hvað atkvæðagreiðsluna varðaði, væri ljóst að ríkisstjórnin myndi ekki beita sér í því efni. „Ég tel að ríkisstjórnin hafi enga heimild til þess að leggja fram fjármuni til þess að vera með áróður í máli af þessu tagi,“ sagði Davíð. Hann sagðist telja víst að stjórnmálaflokkarnir myndu ekki beita sér. „Ekki mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja fram krónu til þess að fara í einhverja samkeppni í þessu máli, ekki krónu,“ sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert