52.000 Palestínumenn missa störf sín vegna aðskilnaðarmúrs Ísraela

Ísraelskur öryggisvörður gengur meðfram aðskilnaðarmúrn Ísraela á Gaza svæðinu.
Ísraelskur öryggisvörður gengur meðfram aðskilnaðarmúrn Ísraela á Gaza svæðinu. AP

Að minnsta kosti 52.000 Palestínumenn munu að líkindum missa störf sína vegna aðskilnaðarmúrs Ísraela á Vesturbakkanum, að því er Mohamed Saed, formaður verkalýðsfélaga í Palestínu greindi frá. Mörg hundruð þúsund Palestínumenn eru þegar atvinnulausir, en múrinn gæti sökkt Palestínumönnum dýpra í fátæktarfenið, að sögn Saed.

Þeir hlutar múrsins, sem þegar er lokið við að byggja, hafa truflað efnahag Palestínu með því að gera þúsundum manna erfitt fyrir með að komast til vinnu og á akra. Þá hafa vegartálmar og lokanir á vegum af hálfu Ísraelshers jafnframt sett strik í reikninginn.

Af tæplega 792.000 vinnufæru fólki í Palestínu, eru að minnsta kosti um 277.000 manns atvinnulausir. 62% íbúa Palestínu lifa undir fátæktarmörkum, sem eru 3,60 dollarar, eða tæpar 260 íslenskar krónur, á dag.

Palestínumenn eru um 3,5 milljónir talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert