Nýr gosbrunnur í Tjörnina

Hér sést gamli gosbrunnurinn tjarnarinnar, en borgarráð hefur samþykkt að …
Hér sést gamli gosbrunnurinn tjarnarinnar, en borgarráð hefur samþykkt að nýr brunnur skuli settur upp í henni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Borgarráð samþykkti á fundi í vikunni tillögu borgarstjóra þess efnis að fela borgarverkfræðingi að setja upp á ný gosbrunn í Reykjavíkurtjörn. Á fundinum var lagt fram bréf borgarverkfræðings. Þar kom fram að í september í fyrra hefði verið vísað til borgarverkfræðings ósk tveggja íbúa í Reykjavík, um að keyptur skyldi nýr gosbrunnur til uppsetningar í Reykjavíkurtjörn.

Borgarverkfræðingur fól garðyrkjustjóra að gefa umsögn um málið. Í minnisblaði garðyrkjustjóra kom fram að tjörnin væri grunn, einungis um 60 - 70 cm á dýpt og með leðjubotni. Hins vegar hafi með sérstökum frágangi á eldri brunni, sem nú er ónýtur, verið settur niður tveggja metra djúpur brunnur ofan í tjörninni, sem dælubúnaður gosbrunnsins notaði til þess að dæla upp úr.

Því teldi garðyrkjustjóri að yrði settur upp nýr brunnur í tjörninni, ætti hann að vera minni, svo ekki þyrfti að slökkva á honum eins oft og þurfti með gamla gosbrunninn, vegna vatnsúða sem lagði yfir gesti Hljómskálagarðsins þegar vind hreyfði.

Jafnframt benti garðyrkjustjóri á að nýjan gosbrunn væri eðlilegast og auðveldast að staðsetja í fyrrnefndum brunni.

Eftir að hafa kannað málið komst garðyrkjustjóri að því að tvær gerðir gosbrunna kæmu til greina. Kostaði sú minni um 400 til 500 þúsund krónur, en sú stærri á bilinu 1,3 til 1,6 milljónir. Gert hefði verið ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

Var tillaga borgarstjóra samþykkt í borgarráði samkvæmt bréfi borgarverkfræðings til ráðsins og þeim kostnaðartölum sem þar liggja fyrir og rúmast innan fjárheimilda Umhverfis- og heilbrigðisstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka