George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í minningarorðum sem hann flutti við útför Ronalds Reagans, fyrrum Bandaríkjaforseta, í dag að Reagan hefði verið djarfur maður sem varð að tákni lands síns. „Hann trúði því að herramenn kæmu alltaf vel fram. Hann trúði því að fólk væri í eðli sínu gott og ættu rétt á frelsi," sagði Bush. Útförin fer fram í dómkirkjunni í Washington að viðstöddum um 4 þúsund gestum.
Bush sagði að Reagan hefði trúað því að Bandaríkin væri ekki venjulegur staður á jörðinni heldur væru þau tákn um von heimsins. Sagði hann að Reagan hefði átt mikinn þátt í að breyta heimsmyndinni á 9. áratug síðustu aldar og sagði að sú sannfæring sem hefði mótað forsetann hefði einnig mótað tíðarandann.
„Þegar hann sá ill öfl draga saman lið við sjóndeildarhringinn kallaði hann þau öfl sínum réttu nöfnum," sagði Bush og bætti við að Reagan hefði trúað á hugrekki og sigur hins frjálsa manns.
Meðal þeirra sem fluttu minningarorð við athöfnina var Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, en ávarp hennar var tekið upp á myndband nýlega og sýnt í kirkjunni. „Við höfum misst mikilhæfan forseta, merkan Bandaríkjamann og mikilmenni; og ég hef misst kæran vin," sagði Thatcher. „Hann reyndi að græða sár og efla kraft hins frjálsa heims og frelsa heiminn undan oki kommúnismans," sagði Thatcher, sem hefur fengið heilablóðfall nokkrum sinnum á síðustu árum.