Kauplaus í reykpásunum

Í norsku versluninni Meny Saga í Skien er dregið af …
Í norsku versluninni Meny Saga í Skien er dregið af kaupi reykingamanna fyrir þann tíma sem þeir fara í reykpásur. mbl.is/Þorkell

Reykingamenn í hópi starfsmanna dagvöruverslunarinnar Meny Saga í Skien í Noregi verða að stimpla sig út og inn úr vinnu þegar þeir fá sér reyk. Dregið er síðan af launum þeirra í hlutfalli við lengd reykpásanna.

Reyksvæði verslunarinnar er á svölum á efstu hæð verslunarhússins og til að komast út á þær verða starfsmenn Meny Saga að renna sérstökum viðverukortum í gegnum skynjara og slá inn persónunúmer sitt til að hurðin opnist.

Þegar reykingunum er lokið verða þeir að opna hurðina upp á nýtt með kortinu og kennitölunni og tölvur launadeildar fyrirtækisins reikna þar með út þann tíma sem notaður er til reykinga hverju sinni. Við uppgjör dregur launatölvan fram heildar reykingatímann og dregur af kaupi viðkomandi í réttu hlutfalli, að því er fram kemur í blaðinu Telemarksavisa.

Þar kemur fram að starfsfólkið er yfir höfuð ánægt með fyrirkomulagið, kveður óeðlilegt að menn fái borgað fyrir reykpásur og reykingamennnirnir hafi minnkað við sig eða einskorðað tóbaksneysluna við kaffi- og matartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert