Starfshópur ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarp setur fram þá hugmynd að gera megi þá kröfu, að a.m.k. 25% atkvæðisbærra manna greiði atkvæði gegn lögunum um eignarhald á fjölmiðlum til þess að þau falli úr gildi. Miðar hann þá við að a.m.k. helmingur kosningarbærra manna taki þátt í atkvæðagreiðslunni.
Kemur þetta fram í skýrslu starfshópsins sem ríkisstjórnin skipaði fyrr í mánuðinum til að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forseti Íslands synjaði lögum um eignarhald á fjölmiðlum staðfestingar.
Um efri þátttökumörk í þjóðaratkvæðagreiðslunni segir starfshópurinn að horfa mætti til meðalkjörsóknar í alþingkosningum á lýðveldistíma 88,58% og þá krefjast þess að helmingur þess fjölda, um 44% atkvæðisbærra manna, þurfi að greiða atkvæði gegn lögunum eigi að ganga gegn vilja Alþingis. Starfshópurinn tekur þó fram að þeim mun hóflegri sem takmörkun af þessu tagi er, þeim mun líklegra verður talið að hún fái staðist.
Starfshópurinn leggst hins vegar gegn því að beitt verði fleiri en einu skilyrði samhliða, ef ákvörðun verður á annað borð tekin um slíkt.
Skýrsla starfshópsins í heild sinni