Kerry gagnrýndur fyrir að velja ekki reyndari mann sem varaforsetaefni

John Edwards ásamt syninum Jack, 4 ára, konu sinni Elizabeth …
John Edwards ásamt syninum Jack, 4 ára, konu sinni Elizabeth og dætrunum Emmu Claire, 6 ára og Cate, sem er 22 ára. AP

Með vali sínu á John Edwards sem varaforsetaefni demókrata í forsetakosningum í Bandaríkjunum í haust, hefur John Kerry án efa veðjað á eina skærustu stjörnu flokksins og einn mesta baráttumanninn, að því er Washington Post greinir frá í dag. Blaðið bendir hins vegar á að Kerry megi eiga von á að verða gagnrýndur fyrir að hafa með valinu á Edwards, sniðgengið mun reyndari menn.

Segir í Washington Post að val á varaforsetaefni segi oft meira um frambjóðandann sjálfan en nokkuð annað sem hann gerir í kosningabaráttunni. Val Kerrys á Edwards þykir benda til þess að hann sé nógu örggur með framboð sitt til þess að velja varaforsetaefni sem talinn sé höfða betur til fólks í kosningabaráttu. Kerry hafi nægt sjálfstraust og telji sig ekki þurfa að óttast samanburð við Edwards.

Ákvörðunin þykir jafnframt benda til þess að Kerry telji að utanríkisstefna sín og reynsla á sviði öryggismála, sem stríðshetja úr Víetnamstríðinu og nefndarmaður í utanríkismálanefnd öldungadeildar þingsins, nægi til þess að kjósendur trúi því að hann geti veitt þjóðinni forystu á tímum hryðjuverka.

Edwards er hins vegar baráttumaður annars konar málaflokka sem demókratar vilja setja á oddinn í kosningabaráttunni. Þar á meðal eru áhyggjur af stöðu efnahagsmála og dýrari þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

Washington Post segir Kerry nú treysta á að hæfni Edwards til þess að heyja árangursríka kosningabaráttu muni vega þyngra á næstu mánuðum, en það að hafa reynslu til að bera. Kerry hefur setið í öldungadeild Bandaríkjaþings frá 1998 og segir blaðið að þar hafi hann ekki unnið sérstök afrek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert