Blair fær í hendur skýrslu um gögn sem notuð voru til að réttlæta innrás í Írak

Tony Blair forsætisráðherra Breta.
Tony Blair forsætisráðherra Breta. AP

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur fengið í hendur skýrslu Butlers lávarðar, sem beðið hefur verið með eftirvæntingu. Í skýrslunni er rætt um þær leyniþjónustuupplýsingar sem lagðar voru til grundvallar innrásinni í Írak og hugsanlega galla á þeim. Blair hefur ítrekað haldið því fram að heimurinn sé öruggari án Saddam Husseins, en hann mun nú fara yfir skýrsluna, sem ekki verður gerð opinber fyrr en á morgun, að því er greint er frá í frétt BBC.

Charles Kennedy, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hefur hvatt forsætisráðherrann til að biðjast afsökunar á að hafa blekkt Breta með röngum upplýsingum um Írak. Blair hefur hins vegar hafnað því að hann hafi látið hafa sig að fífli með því að gleypa við röngum upplýsingum.

Á blaðamannafundi með Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, í dag, hvatti Blair fólk til að bíða eftir niðurstöðunum úr skýrslu Butlers.

Hann sagði að hann væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að ráðast inn í Írak. „Með hliðsjón af sögu Saddams og gjörðum, ekki bara gegn eigin þegnum, heldur heiminum, tel ég að við séum betur komin, óhultari og öruggari án hans við stjórnvölinn,“ sagði Blair.

Hann sagði að ástandið í Írak væri að breytast, þrátt fyrir að enn væri full ástæða til að „fara verulega gætilega“.

Of stuttur tími fyrir stjórnarandstöðuna til að kynna sér skýrsluna

Butler lávarður mun kynna skýrslu sína á blaðamannafundi á hádegi á morgun, klukkan 12.30 að breskum tíma. Blair mun ræða um skýrsluna við þingið einni klukkustund síðar.

Þingmenn Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata munu fá aðgang að skýrslunni klukkan sex í fyrramálið að breskum tíma. Þeir munu því hafa um sjö klukkustundir til að lesa hana yfir áður en Blair gefur yfirlýsingu um málið í þinginu.

Þetta er svipaður tími og þingmenn fengu í janúar þegar Hutton lávarður birti skýrslu sína um dauða breska efnavopnasérfræðingsins, David Kellys. Kennedy sagði óásættanlegt að stjórnarandstöðuflokkarnir fengju einungis um fjórðung þess tíma sem Blair hefði, til þess að velta skýrslunni fyrir sér.

Vaxandi umræða hefur verið um hvaða áhrif skýrsla Butlers muni hafa á stöðu Blairs og bresku leyniþjónustunnar. Í yfirlýsingu frá skrifstofu Blairs, kom fram að fréttum ITV sjónvarpsstöðvarinnar þess efnis að John Scarlett yfirmaður MI6, deildar innan bresku leyniþjónustunnar, sé gagnrýndur í skýrslunni, yrði ekki svarað.

Rannsókn á málinu var hafin í febrúar eftir að mistekist hafði að finna gjöreyðingarvopn í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert