Núgildandi lög um eignarhald fjölmiðla verða afturkölluð og fjölmiðlafrumvarpið, sem hefur verið til meðferðar í allsherjarnefnd Alþingis, dregið til baka. Breytingartillaga þess efnis verður lögð fram á fundi allsherjarnefndar klukkan tvö í dag og stjórnarfrumvarpið afgreitt til þingsins. Áður verða breytingarnar kynntar á ríkisstjórnarfundi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins náðist endanlegt samkomulag um þetta á fundi formanna stjórnarflokkanna, Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar, í stjórnarráðinu í gær. Samhliða þessu má búast við að lögð verði fram yfirlýsing eða þingsályktunartillaga þar sem m.a. verður lýst yfir vilja til að endurskoða 26. grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands.
Gert er ráð fyrir að boðað verði til svokallaðs útbýtingarfundar á Alþingi í framhaldinu. Þar verður nefndarálit meirihluta allsherjarnefndar lagt fram svo hægt verði að taka fjölmiðlafrumvarpið til annarrar umræðu á morgun. Samkvæmt þingsköpum má önnur umræða eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir útbýtingu nefndarálits.
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sögðu eftir fund sinn í gær að þeir myndu gera fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í allsherjarnefnd grein fyrir niðurstöðu sinni. Frumvarpið væri á forræði ríkisstjórnarinnar en til meðferðar í nefndinni sem færi yfir sjónarmið þeirra. Vænti Davíð þess að málið yrði afgreitt í dag. "Við Halldór erum alveg samstiga í málinu," sagði hann. Báðir fullyrtu að Sjálfstæðisflokknum hefði ekki verið stillt upp við vegg í málinu. Halldór sagði að svo gengju stjórnmálin ekki fyrir sig og Davíð sagði að flokkarnir hefðu ekki starfað saman í ríkisstjórn í níu ár væri það gert.
Lög um eignarhald á fjölmiðlum voru samþykkt á Alþingi 24. maí sl. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði þeim staðfestingar 2. júní en lögin tóku samt sem áður gildi. Nýtt frumvarp um fjölmiðla var lagt fram á Alþingi 5. júlí. Samkvæmt 3. gr. þess áttu lögin frá 24. maí að falla úr gildi um leið og nýtt frumvarp yrði samþykkt. Efnislega mun sú grein halda gildi sínu samkvæmt breytingartillögunni sem og ákvæði um skipan útvarpsréttarnefndar.