Þingfundi á ítalska þinginu var frestað í dag þegar slagsmál brutust út milli þingmanna eftir að þeir höfðu rifist um opinbert lán sem veita átti ríkisflugfélaginu Alitalia. „Þetta er brjálæði, algert brjálæði," sagði Pier Ferdinando Cassini, forseti neðri deildar þingsins eftir að hann hafði frestað þinghaldinu.
Deilurnar brutust út eftir að Norðurbandalagið, sem á aðild að ríkisstjórn Silvios Berlusconis, kom í veg fyrir áform um að veita Alitalia 400 milljóna króna opinbert lán. Ráðherrar Norðurbandalagsins voru andvígir láninu og þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn því í þinginu.
Þingmaður Sósíalistaflokksins, sem einnig styður ríkisstjórnina, gagnrýndi þingmenn Norðurbandalagsins á þingfundinum í dag. Þeir svöruðu fullum hálsi og í kjölfarið upphófst mikið rifrildi í þingsalnum. Davide Caparini, þingmaður Norðurbandalagsins, sló þá þingmanninn Roberto Giachetti í andlitið og þurfti að fara með hann á slysadeild til að gera að sárum hans. Caparini var í kjölfarið settur í þriggja daga bann á þinginu.
Bobo Craxi, leiðtogi Sósíalistaflokksins, tilkynnti að þingmenn flokksins, sem eru tveir, muni ekki taka þátt í fundum stjórnarmeirihlutans fyrr en Norðurbandalagið hafi beðist afsökunar.
Bobo er sonur Bettiono Craxis, fyrrum leiðtoga Sósíalistaflokksins og forsætisráðherra. Craxi eldri varð á sínum tíma að flýja til Túnis undan yfirvofandi réttarhöldum vegna spillingarákæru og þar lést hann árið 2000.