Enskunámið hafði alvarlegar afleiðingar

Japanskur ferðamaður, sem er að hressa upp á enskukunnáttu sína, olli uppnámi um borð í flugvél bandaríska flugfélagsins United Airlines á leið frá Chicago til Columbus í Ohio. Maðurinn hafði skrifað orðin „suicide bomb", eða „sjálfsmorðssprengja", í vasabók sína og sessunautur hans sá orðin þegar Japaninn fletti bókinni og lét flugþjón vita og flugstjóri vélarinnar ákvað að snúa vélinni til baka til O'Hare flugvallar í Chicago.

Mikill viðbúnaður var á flugvellinum þegar vélin lenti. Allir farþegarnir, 120 talsins, voru látnir fara út út vélinni og Japaninn var handtekinn. Honum var hins vegar sleppt fljótlega þegar í ljós kom að hann var aðeins að reyna að læra ensku.

Að sögn talsmanns lögreglunnar í Chicago lærir Japaninn, sem er sextugur, ensku með því að skrifa niður orð og orðasambönd sem hann sér í blöðum og leitar síðan að orðunum í orðabók.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert