Töldu Edward Kennedy vera hryðjuverkamann

Edward Kennedy með Kathleen Kennedy Townsend, frænku sinni.
Edward Kennedy með Kathleen Kennedy Townsend, frænku sinni. AP

Háttsettur embættismaður ráðuneytis heimavarnarmála í Bandaríkjunum hefur beðið öldungadeildarþingmanninn Edward M. Kennedy afsökunar, en Kennedy var stöðvaður á flugvöllum vegna þess að nafn, svipað hans, var á lista sem Bandaríkjastjórn hafði sent út yfir grunaða hryðjuverkamenn sem ekki mætti hleypa upp í flugvélar. Kennedy er bróðir Johns F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta.

„Ef þeir eiga í slíkum vandræðum með þingmann, hvers konar meðferð geta venjulegir Bandaríkjamenn áatt von á ef þeir lenda í svona aðstöðu?" spurði Kennedy Asa Hutchinson, aðstoðarráðuneytisstjóra heimavarnarráðuneytisins.

Kennedy, sem er þingmaður fyrir Massachusetts, sagði að hann hefði verið stöðvaður fimm sinnum þegar hann reyndi að fara um borð í flugvélar sem voru að fara milli Washington og Boston vegna þess að nafn, svipað hans, hefði komið fram á válista.

Hutchinson, sem bað þingmanninn afsökunar á óþægindum sem hann kynni að hafa orðið fyrir, bar vitni í gær fyrir dómsmálanefnd öldungadeildarinnar sem fjallar nú um hvort alríkisstjórnin eigi að taka yfir eftirlit með þessum válistum en flugfélögin bera nú ábyrgð á þessu eftirliti.

Annar þingmaður demókrata, John Lewis, sagði í dag að hann hefði oft lent í svipuðum málum. Hann sagðist ekki fá rafræna flugmiða, hann verði að sýna skilríki og farangur hans sé jafnan grandskoðaður.

Lewis sagði að einn starfsmaður flugfélags í Atlanta hefði sagt sér, að ef menn lentu á umræddum listum væri engin leið að komast af þeim. Sagðist Lewis hafa kvartað við heimavarnaráðuneytið og íhugaði að höfða mál.

Í vikunni hringdi annar John Lewis, háskólakennari í Houston, í Lewis og sagðist einnig vera á umræddum lista. „Þetta er sérkennilegt," sagði háskólakennarinn, „en ég er ánægður með að vera í flokki með Ted Kennedy og þingmanninum."

Kennedy sagðist hafa verið stöðvaður þrívegis á flugvöllum í Washington og Boston í mars. Starfsmenn flugfélaga sögðu honum að hann gæti ekki keypt flugmiða vegna þess að nafn hans væri á lista. Þegar hann spurði starfsmennina hvers vegna hann væri á listanum svörðu þeir að það gætu þeir ekki upplýst.

Kennedy komst á endanum með flugvélunum vegna þess að yfirmenn á flugvöllunum þekktu hann. En eftir að þetta gerðist í þriðja sinn hringdi Kennedy í bandarísk flugmálayfirvöld og bað þau ásjár. Það virtist ekki nægja því Kennedy var stöðvaður tvisvar eftir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert