Viðræður um sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík.

Forystumenn Tækniháskóla Íslands (THÍ) og Háskólans í Reykjavík (HR) hafa átt í viðræðum undanfarnar vikur um samvinnu eða samruna þessara tveggja háskóla. Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu, að viðræðurnar séu að frumkvæði ráðuneytisins. Það sé er mat forystumanna skólanna jafnt sem ráðuneytisins að sóknarfæri fyrir íslenskt samfélag felist í sameiningu skólanna og með samruna þeirra til stór og öflugur háskóli er hefði náin tengsl við íslenskt atvinnulíf og gæti gegnt mikilvægu hlutverki á mörgum sviðum í íslensku háskólasamfélagi.

Í tilkynningunni segir, að síðastliðið vor hafi orðið ljóst að framtíðarhugmyndir stjórnenda háskólanna tveggja hafi hnigið að mörgu leyti í sömu átt. Innan HR og THÍ hafi verið uppi hugmyndir um að efla nám á sviði tæknimenntunar og stefna að kennslu í verkfræði. Þá hafi báðir skólarnir unnið að því á síðustu árum að byggja upp öflugt nám á sviði rekstrar- og viðskiptafræða og sé það nú kennt á báðum stöðum.

Í ljósi þessa hefði menntamálaráðherra talið rökrétt að kanna hvort flötur væri á samstarfi og jafnvel samruna skólanna áður en lengra væri haldið. Smæð íslenskra háskóla hafi að sumu leyti staðið þeim fyrir þrifum.

Fram kemur, að eftir óformlegar þreifingar hafi þótt ljóst, að kostir samruna skólanna væru jafnvel fleiri en talið hafi verið í fyrstu og því ákveðið að hefja nú formlegar viðræður um samruna skólanna tveggja. Formlegum viðræðum verður haldið áfram á næstu vikum og stefnt er að því að niðurstöður þeirra liggi fyrir í lok september.

Á Íslandi eru nú starfræktar níu kennslustofnanir á háskólastigi og segir menntamálaráðuneytið, að undanfarin ár hafi einkennst af mikilli grósku og nýsköpun í háskólaumhverfinu. Sterk rök hnígi hins vegar að því að ávinningur kunni að vera af aukinni samvinnu milli háskóla. Íslenskir háskólar séu ekki aðeins að keppa á íslenskum markaði heldur einnig á alþjóðlegum markaði um rannsóknarfé, kennara og nemendur. Það sé því í hag skólanna að sameina kraftana til frekari uppbyggingar samhliða því sem gæði námsframboðs,kennslu og rannsókna séu aukin.

Samráð hefur verið haft við Verslunarráð Íslands, sem rekur Háskólann í Reykjavík, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Í tilkynningunni segir, að allir þeir sem komið hafi að málinu hafi lýst yfir ánægju með að hefja formlegar viðræður um málið og telji að samruni skólanna geti styrkt stöðu viðskipta- og tæknimenntunar á Íslandi og þar með styrkt samkeppnisstöðu íslensk atvinnulífs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert