Frjálshyggju- og jafnréttisdeildir Heimdallar leystar upp

Bolli Thoroddsen, formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Bolli Thoroddsen, formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. mbl.is

Nýkjörin stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, undir forystu Bolla Thoroddsen, tók þá ákvörðun á fundi sínum í gærkvöldi að leysa upp tvær sjálfstætt starfandi deildir félagsins, frjálshyggjudeild og jafnréttisdeild.

Í yfirlýsingu frá frjálshyggjudeildinni segir að með þessu hafi stjórn félagsins brotið lög og fordæmir frjálshyggjudeildin aðgerðina. Segir í yfirlýsingunni að samkvæmt lögum félagsins sé mögulegt að leysa upp deild innan þess þá og því að aðeins að hún brjóti lög eða vinni gegn stefnu þess, en svo virðist sem hvorugt hafi verið gert.

Í ályktun stjórnar Heimdallar segir hins vegar að nýkjörin stjórn Heimdallar hafi lagt fram á fundi sínum tillögur að nýju skipulagi fyrir málefnastarf Heimdallar veturinn 2004–2005. Í því skipulagi séu níu málefna- og starfshópar og markmiðið með þeim breytingum sé að auka og styrkja innra jafnt sem ytra starf félagsins.

Séu þeir starfshópar opnir öllum félagsmönnum Heimdallar og fulltrúum frjálshyggjudeildarinnar hefði verið boðið að velja sér starfshópa, þar sem þeir gætu starfað að framgangi hugsjóna frjálshyggjunnar til jafns við aðra.

Þá segir einnig í ályktuninni að í nýju skipulagstillögunum sé allt málefnastarf félagsins fellt undir ofangreinda níu starfshópa. Í kjölfarið og í samræmi við þessa nýju stefnu félagsins, hafi starfsemi þessara tveggja deilda verið felld niður og viðfangsefnin færð undir nýja málefna- og starfshópa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert