Ástralski leikarinn Russell Crowe viðurkennir í bréfi sem hann skrifaði ástralska blaðinu The Sunday Herald Sun að hann hafi lent í slagsmálum við lífvörð sinn, Mark „Spud" Carrol. Segir Crowe að atvikið hafi orðið í samkvæmi á föstudagskvöldi fyrir um mánuði þegar verið var að taka upp kvikmynda The Cinderella Man, þar sem Crowe leikur hnefaleikara.
Crowe segist hafa verið að ræða við leikkonu á barnum. Carroll hafi komið til þeirra og Crowe hafi talið að hann væri með dylgjur. Í raun hafi Carroll ætlað að segja Crowe, hvað aðrir í salnum væri að pískra sín á milli um samtal Crowes og leikkonunnar.
„Ég hélt að hann væri að saka mig um eitthvað og ég móðgaðist. Það er ekki skrýtið því ég er afar viðkvæmur fyrir slúðri og vangaveltum og búinn að fá nóg af ímyndunum annarra. Spud var að láta mig vita af því hvað aðrir væru að ímynda sér og ég skaut sendiboðann," skrifar Crowe. Hann bætir við að sem betur fer hafi hann þurft að vera með þykkan farða við kvikmyndatökurnar daginn eftir og því hafi enginn séð hvað gerst hafði."
Crowe segir að leikkonan væri vinkona Danielle, konu sinnar, og eiginkonunni sé sem betur fer sama þótt hann fái sér í glas og ræði við vinnufélaga í vikulokin.
Crowe segir að hann og Carroll, sem lék áður rúgbí í Ástralíu, hafi sæst daginn eftir.
Carroll skrifar blaðinu einnig bréf og ber til baka að Crowe hafi bitið sig í eyrað. „Hann reyndi að bíta mig í brjóstið, sem var skiljanlegt vegna þess að ég var að reyna að kæfa hann," skrifar Carroll.