Fangi strýkur af Litla-Hrauni

Lögreglumenn úr Reykjavík stöðvuðu bíla á leið til borgarinnar við …
Lögreglumenn úr Reykjavík stöðvuðu bíla á leið til borgarinnar við Rauðvatn í kvöld vegna leitarinnar að strokufanganum. mbl.is/Þorkell

Fangi strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni í kvöld og hefur allt tiltækt lið Selfosslögreglunnar svipast um eftir honum í nágrenni fangelsisins í kvöld. Biður lögreglan fólk sem kann að hafa orðið vart við mannaferðir í nágrenni Litla-Hrauns um og rétt fyrir klukkan 19 að láta sig vita.

Maðurinn er 28 ára og hafði ekki fundist á tíunda tímanum í kvöld, hálfri þriðju stund eftir hvarf hans. Hann er fæddur árið 1976, er lágvaxinn eða um 1,60 metrar á hæð, grannvaxinn og krúnurakaður.

Að sögn lögreglunnar var strok fangans tilkynnt klukkan 18:49 í kvöld. Talið er að sést hafi til hans á hlaupum frá fangelsinu en óljóst er hvort beðið hafi verið eftir honum utan girðingar Litla-Hrauns. Næsta nágrenni fangelsisins hefur verið kannað í kvöld.

Lögreglan á Selfossi biður þá sem kunna að hafa orðið varir við mannaferðir í nágrenni Litla-Hrauns um og rétt fyrir klukkan 19 að láta sig vita í síma 4801010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert