Cheney segir kjör Kerrys ávísun á hryðjuverk

Dick Cheney á framboðsfundi í Des Moins í gær.
Dick Cheney á framboðsfundi í Des Moins í gær. AP

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í gær að ef John Kerry, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, næði kjöri væri hætta á að annað hryðjuverk yrði unnið í Bandaríkjunum. Varaforsetaefni Kerrys, John Edwards, brást hinn versti við og sagði Cheney hafa „farið yfir strikið“.

Cheney var á kosningaferðalagi í Des Moins í miðvesturríkjunum og sagði þá meðal annars: „Það er höfuðatriði að við veljum rétt“ í kosningunum 2. nóvember. „Ef við veljum rangt er hættan sú, að við verðum fyrir annarri árás,“ hélt hann áfram, og gaf í skyn að Kerry væri ekki eins staðráðinn og George W. Bush forseti í því að berjast gegn öfgasinnum.

Í yfirlýsingu frá Edwards sagði um orð Cheneys: „Hræðsluáróður Dicks Cheneys fór yfir strikið í dag, og hann sýndi rétt eina ferðina að hann og George Bush eru tilbúnir til að gera hvað sem er og segja hvað sem er til að halda vinnunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert