Guðbjörg Lind Valdimarsdóttir og Kristján Arne Þórðarson eignuðust stúlkubarn aðfararnótt miðvikudags. Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að litlu stúlkunni lá greinilega mikið á að komast í heiminn, svo mikið að móðirin neyddist til að fæða barnið á stofugólfinu heima hjá sér í Hafnarfirði.
Daginn fyrir fæðinguna höfðu þau farið upp á fæðingardeild í skoðun. "Ég hafði þá verið með verki allan daginn en mér var þá bara sagt að taka tvær verkjatöflur og reyna að sofna. Það voru hins vegar áfram korter milli verkja þangað til rétt fyrir kl. fjögur, en þá missti ég vatnið. Ég fór síðan í sturtu og þá styttist á milli verkja," segir Guðbjörg í samtali við Víkurfréttir. Kristján bætir því við að hann hafi meira að segja spurt hvort ekki væri möguleiki að hún gæti haldið í sér!
Guðbjörg segist hafa orðið vör við að barnið vildi koma í heiminn þegar hríðirnar urðu tíðari, þ.e. breyttust frá því að vera á 15 mínútna fresti yfir í að vera á þriggja mínútna fresti. "Við hringdum þá í ljósmóðurina sem býr í næstu götu en svo gat ég lítið annað gert en að leggjast á gólfið og fæða hana þar sem hún var þegar komin með hálft höfuðið út. Hríðunum byrjaði að fjölga rétt rúmlega fjögur um nóttina og hún fæddist svo 20 mínútur yfir fjögur."
Athafnir Kristjáns benda ekki síður til þess hve mikill hraðinn og asinn hefur verið á barninu. "Ég þurfti fyrst að hjálpa Guðbjörgu úr buxunum þegar hún hafði lagst á gólfið og þá var höfuðið komið út. Ég var í sambandi við ljósmóðurina sem sagði mér að ná í handklæði til að setja undir Guðbjörgu. Ég hljóp niður og náði í handklæði. Það hefur kannski tekið um 20 sekúndur en þegar ég var kominn upp þá var barnið komið í heiminn." Guðbjörg bætti við: "Það tók því í raun enginn á móti henni. Hún bara rúllaði sjálf út og á gólfið!"