Ár liðið frá dauða Önnu Lindh

Anna Lindh.
Anna Lindh.

Ár er nú liðið frá því ráðist var á Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svíþjóðar, í verslunarmiðstöð í Stokkhólmi en Lindh lést á sjúkrahúsi af sárum sínum að morgni 11. september í fyrra. Svíar hafa í morgun lagt blóm á gröf hennar. Göran Persson, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsviðtali í morgun að honum þættu þessir atburðir enn óraunverulegir.

„Mér finnst þetta enn svo óraunverulegt. Mér hefur þótt það allan tímann," sagði Persson við TV4 sjónvarpsstöðina. „Mér hætti að þykja gaman að stjórnmálum og starfi mínu eftir að þetta gerðist."

Ráðist var á Lindh í NK verslunarhúsinu í Stokkhólmi eftir hádegi 10. september og hún var stungin margsinnis í kviðinn, brjóstið og handleggina. Hún var flutt á sjúkrahús og lést nóttina á eftir. Árásarmaðurinn, 25 ára gamall maður að nafni Mijailo Mijailovic, var handtekinn hálfum mánuði síðar. Hann játaði síðar á sig árásina og sagði að raddir í höfði sér, þar á meðal rödd Jesús, hefðu sagt sér að ráðast á Lindh. Mijailovic var í héraðsdómi dæmdur í lífstíðar fangelsi fyrir manndráp en áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Mijailovic væri ósakhæfur vegna geðsjúkdóms. Þeirri niðurstöðu hefur verið áfrýjað til hæstaréttar.

„Ég tók þetta afar nærri mér ," sagði Persson. „Þetta er ekki auðveldur dagur og tilfinningarnar brjótast fram að nýju."

Fjöldi manns hefur í morgun lagt blóm á leiði Lindh í kirkjugarðinn við Katarina Kyrka í Stokkhólmi. Utan við NK verslunarhúsið stóðu fulltrúar minningarsjóðs um Lindh með söfnunarbauka. Einnig hafa verið lögð blóm á gangstéttir utan við húsið.

Í dag verða haldnir mótmælafundir gegn ofbeldi í borgunum Malmö og Umeä og sérstakt málþing verður haldið í Stokkhólmi til minningar um Lindh. Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands og Margot Wallström, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins verða meðal ráðstefnugesta og Javier Solana, utanríkismálastjóri ESB, mun ávarpa málþingið gegnum fjarfundabúnað. Sænska sjónvarpið verður síðdegis með sérstaka dagskrá í dag til minningar um Lindh.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert