Davíð Oddsson afhenti Halldóri Ásgrímssyni lyklana að Stjórnarráðinu við Lækjargötu nú síðdegis eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum þar sem Halldór tók við embætti forsætisráðherra. Bauð Davíð Halldór velkominn á skrifstofu sína, í þetta yndislega hús, eins og hann sagði, og bætti við að það væri einstakt fyrir hvern mann að fá að gegna þessu embætti.
Halldór óskaði Davíð á móti alls góðs í framtíðinni og sagði að það væri ljóst að enginn myndi gegna embætti forsætisráðherra jafn lengi og hann. Halldór sagði að það hlyti að vera hápunkturinn á stjórnmálaferli sínum, að fá að gegna þessu mikilvægasta embætti þjóðarinnar.
Davíð tók við embætti utanríkisráðherra í dag og gerði hann góðlátlega athugasemd við að hann fékk enga lykla afhenta að utanríkisráðuneytinu. „Er bara opið?" spurði hann og kom í ljós að lyklarnir bíða hans á nýjum stað.
Halldór sagði að fyrstu verkefnin í nýju embætti væru að vinna að stefnuræðu forsætisráðherra, sem verður flutt þegar þing kemur saman 1. október, ræða við ráðherrana og setja sig inn í mál og skipuleggja tíma sinn.
Um væntanlegar breytingar á stjórnarskránni sagði Halldór að vilji væri til þeirra hjá öllum stjórnmálaflokkum. Hann legði áherslu á að þverpólitísk samstaða næðist um málið og að vinna hæfist senn.
Aðspurður sagði Halldór að Síminn yrði seldur, það lægi fyrir, en ekki væri hægt að segja nákvæmlega til um tímasetninguna. Það væri spurning um vikur eða mánuði. Hann sagði að dreifikerfi Símans væri sameiginlegt áhugamál stjórnarflokkanna, en það yrði aldrei fulluppbyggt, frekar en vegakerfið. Ávallt væru verkefni á því sviði.
Halldór sagði að skattalækkanir yrðu 4% á kjörtímabilinu, hagvaxtarspár gæfu til kynna að svigrúm væri til þeirra. Forgangsmál væru lækkun tekjuskatts, eignarskatts og hækkun barnabóta.