Um 20 foreldrar komu saman á Austurvelli í hádeginu í því skyni að mótmæla boðuðu verkfalli grunnskólakennara sem hefst á mánudag, hafi samningar ekki náðst. Samtökin Heimili og skóli hvöttu til mótmælastöðunnar. Anna María Proppé, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, sagðist stórhneyksluð á því að að ekki skyldu fleiri láta sjá sig og mótmæla.
„En það er líka spurningin um atvinnurekendur. Eru þeir ekki að stuðla að því að foreldrar taki þátt og mótmæli því þeir eiga eftir að lenda í þessu líka. Það eru þeirra hagsmunir að foreldrar láti sjá sig,“ sagði Anna María.
Ragnhildur Ingólfsdóttir móðir tveggja barna í 4. og 7. bekk í Mýrarhúsaskóla, sem mætt var til fundarins, sagði að fundarmenn vildu mótmæla því að skólabörn þyrftu að lenda í verkfalli enn og aftur. „Við berum hag barnanna okkar fyrir brjósti, þau eru það mikilvægasta sem við eigum og það er alveg ófært að þau þurfi að ganga í gegnum þetta,“ sagði Ragnhildur. „Lítil börn sem eru að byrja í skóla og eiga kannski erfitt með að byrja er hent út. Og eldri börn, til dæmis þau sem eru í 10. bekk og eru að fara í samræmdu prófin, hvað verður um þau?,“ spurði Ragnhildur. Hún sagði með ólíkindum að gripið væri til verkfalls árið 2004. „Við eigum löngu að vera finna út úr þessu,“ bætti hún við.
Ragnhildur sagði að menn vildu ekki kenna einum eða öðrum um hvernig málum væri komið. „Ég er ekki hér til þess að halda með einum eða neinum nema börnunum mínum. Ég vil að samningsaðilar vinni sína vinni og leysi þessi mál,“ bætti hún við.
Til stendur að halda mótmælafundi á laugardag og sunnudag á sama stað og sama tíma, að sögn félaga í Heimili og skóla.