Á myndbandi sem birt var á íslamskri vefsíðu í dag og er sagt á vegum uppreisnarhóps Abu Musab al-Zarqawis í Írak, sést maður sem sagður er Kenneth Bigley, breskur gísl sem hópurinn hefur í haldi, sárbæna Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, um að bjarga lífi sínu. Hópur al-Zarqawis hefur þegar lýst ábyrgð á aftökum tveggja bandarískra gísla sem hann hafði í haldi sínu, ásamt Bretanum. Hópurinn hefur hótað því að taka Bigley einnig af lífi, verði kvenföngum í íröskum fangelsum ekki sleppt. Sannleiksgildi myndbandsins hefur ekki verið staðfest. Á því hvetur Bigley Blair til þess að stuðla að lausn íraskra kvenfanga.
„Þetta er hugsanlega síðasta tækifæri mitt til þess að ræða við ykkur,“ segir röddin sem sögð er vera rödd Bigleys, en hún heyrist bresta nokkrum sinnum. Bigley sést sitja fyrir framan fána sem merktur er Tawhid wal Jihad, (Eining og heilagt stríð), hóp sem afhöfðað hefur tvo Bandaríkjamenn, sem rænt var ásamt Bigley í síðustu viku.
„Ég þarf á því að halda að þú (Blair) sýnir að þú sért jafn samúðarfullur og þú hefur ávallt sagst vera...Ég vil ekki deyja...Ég bið þig, ég bið þig að sleppa kvenföngunum sem haldið er í íröskum fangelsum,“ segir röddin og við það heyrist maðurinn bresta í grát.
Á myndbandinu sést maðurinn sem virðist vera Bigley, klæddur í appelsínugulan samfesting, samskonar þeim sem Bandaríkjamennirnir voru í áður en þeir voru teknir af lífi.
Talsmaður breska utanríkisráðuneytisins í London sagði eftir birtingu myndbandsins: „Við höfum heyrt fréttina. Við erum að skoða þetta ítarlega. Við erum í sambandi við fjölskylduna.“ Hún bætti við: „Afstaða okkar er ljós. Við semjum ekki við hryðjuverkamenn.“