Kennaradeilan: Vandinn aukist ef eitthvað er

Samninganefnd kennara í húsnæði ríkissáttasemjara í morgun.
Samninganefnd kennara í húsnæði ríkissáttasemjara í morgun. mbl.is/Þorkell

Sáttafundi í kennaradeilunni, sem hófst klukkan níu í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara, var slitið að verða hálftólf eftir rúmlega tveggja tíma viðræður. Boðað hefur verið til annars fundar kl. 9 næsta fimmtudag. Fram kom í máli forsvarsmanna deiluaðila að ef eitthvað væri hefði vandinn aukist eftir fundinn í morgun.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins að ríkissáttasemjari hefði rætt við tvo úr hópi kennara og einn frá samninganefnd sveitarfélaga og niðurstaðan væri þessi.

Hann sagði að kennarar hefðu ítrekað sagt að það væru „þessar grundvallarkröfur í vinnutímanum“ og að ekki yrði staðið upp frá samningaborði fyrr en lausn hefði verið fundin á því máli. Fulltrúar sveitarfélaganna hefðu ekki verið tilbúnir að hlusta neitt á það. Segja mætti að málið væri komið stál í stál.

Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaga, sagði að sáttasemjari hefði stungið upp á að deiluaðilar myndu taka „svona hugarflugsfundi“ á mánudag og eftir helgi til þess að kanna allar leiðir sem væru mögulegar. Því hefði verið hafnað af hálfu Félags grunnskólakennara.

„Þeir segja að þeirra kröfur séu ófrávíkjanlegar,“ sagði Birgir Björn, „þeir eru algjörlega ósveigjanlegir í því og eru ekki tilbúnir að halda áfram einhverjum viðræðum, sem væru þá til þess eins að spila með tilfinningar þjóðarinnar, eins og þeir sögðu.“ Þeir hefðu sagt að það væri ekki tilefni til frekari funda fyrr en launanefndin kæmi með nýtt tilboð.

„Þetta var þeirra afstaða og við þessa afstöðu fæ ég ekkert ráðið,“ sagði Birgir Björn í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins. „Við af hálfu samninganefndar launanefndar höfðum lýst því yfir að við værum tilbúnir til slíkra funda en við fáum bara ekki við þetta ráðið.“

- Er þá allt við það sama?

„Ef það hefur þá ekki raunverulega aukist vandi okkar vegna þess að við höfum hingað til verið að tala saman í rauninni. En á meðan við tölum ekki saman er ekki mikið að gerast.“

Birgir Björn sagði að fulltrúar launanefndar hefðu tjáð ríkissáttasemjara að þeir væru reiðubúnir til hvers kyns viðræðna og þess fyrirkomulags, sem hann kysi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert