Þingmenn gengu út þegar þingforseti gagnrýndi forseta Íslands

Halldór Blöndal.
Halldór Blöndal.

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, sagði á setningarfundi Alþingis í dag, að synjunarákvæði stjórnarskrárinnar væri leifar af þeirri trú að konungurinn fari með guðsvald. Sagði Halldór, að eftir atburði sumarsins, þegar forseti Íslands synjaði fjölmiðlalögunum samþykki, stæði löggjafarstarf Alþingis ekki jafn traustum fótum og áður. Hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar gekk úr salnum þegar Halldór flutti ræðu sína, þar á meðal bæði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.

Halldór Blöndal var endurkjörinn forseti Alþingis á þingsetningarfundinum í dag. Í ræðu sem hann flutti eftir það vísað hann m.a. til yfirlýsingar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, las upp á blaðamannafundi á Bessastöðum þegar hann lýsti ástæðum þess að hann ákvað að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar, en þar sagði Ólafur Ragnar m.a., að hann reisti synjun sína á 26. stjórnarskrárinnar vegna þess að samhljóminn, sem yrði að vera milli þings og þjóðar í málinu, virtist skorta og ekki væri farsælt að varanlega væri djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja.

Halldór sagði að Alþingi væri elsta og æðsta stofnun þjóðarinnar, að löggjafarvaldið væri í höndum Alþingis og Alþingi væri hornsteinn menningar og lýðræðislegrar stjórnskipunar hér á landi og Alþingi og þingræðislegir stjórnarhættir ættu djúpar rætur í hugum Íslendinga.

„Synjunarvald stjórnarskrárinnar eru leifar af þeirri trú, að konungurinn, einvaldurinn, fari með guðsvald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín. Alþingi er kjörið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi," sagði Halldór.

Hann sagði að sér hefði aldrei komið til hugar að forseti Íslands myndi synja um staðfestingu á lögum frá Alþingi og svo væri um fleiri. Sagði hann einnig að hvergi væri gert ráð fyrir því í stjórnarskránni, að forseti Íslands gæti með athöfnum sínum eða athafnaleysi skert löggjafarvald Alþingis.

„Kjarni þess sem ég vil segja nú við setningu Alþingis er, að eftir atburði sumarsins stendur löggjafarstarf Alþingis ekki jafn traustum fótum og áður. Það er alvarleg þróun og getur orðið þjóðinni örlagarík nema við sé brugðist. Ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, framkvæmdarvald og dómsvald, þurfa endurskoðunar við: hver skal vera staða Alþingis, hver forseta Íslands og ríkisstjórnar og hver dómstóla. Slík endurskoðun hefur látið á sér standa þar sem menn almennt hafa talið önnur mál brýnni enda hefðu skapast ákveðnar hefðir og venjur, sem ástæðulaust væri að hrófla við en einstök ákvæði stjórnarskrárinnar hvorki verið skilin né framkvæmd eftir bókstafnum. Þau hörðu átök sem urðu á Alþingi í vor og sumar, gera slíka endurskoðun á stjórnarskránni örðugri en ella mundi. Einstökum alþingismönnum kann að finnast sem þeir hafi fest sig í ákveðnum skoðunum og skilyrðum sem þeir vilja ekki víkja frá að svo komnu. Því má vera, að niðurstöðu sé ekki að vænta meðan það þing situr sem kjörið var í maí 2003. Eftir sem áður þarf að hefja verkið. Staða Alþingis verður að vera hafin yfir vafa og löggjafarstarfið í traustum skorðum," sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert