Wales vantar á kort af ESB

Írska hafið hefur verið stækkað á ESB-kortinu sem nemur Wales.
Írska hafið hefur verið stækkað á ESB-kortinu sem nemur Wales. ap

Afglöp skriffinna í skrifstofum Evrópusambandsins - fremur en samsæri - eru talin orsök þess að Wales vantar á Evrópukortið innan bókar á forsíðu og annars metnaðarfullar uppsláttarbókar um sambandið.

Í bókinni, sem hagstofa ESB gefur út, er að finna allar tölulegar staðreyndir um sambandið og aðildarríki þess. Öll ríki þess er að finna á kortinu á forsíðunni. Þó hefur hinn velski hluti Bretlands verið afmáður og Írska hafið verið stækkað sem því nemur.

Skurðlína hefur verið dregin frá borginni Chester að ósum árinnar Severn eða nokkurn veginn eftir landamærum England og Wales. Vestan hennar er nú ekkert fyrr en komið er að Írlandsströndum, í stað velskra fjalla og dala.

Skrifstofa ESB í Cardiff, höfuðstað Wales, hefur ekkert viljað tjá sig um málið. Hvorki hefur verið farið fram á að bókin dýra verði afturkölluð né afsökunar á mistökunum beðist.

Einn af þingmönnum Verkamannaflokksins á Evrópuþinginu fyrir Wales, Glenys Kinnock, eiginkona Neils Kinnock fyrrverandi leiðtoga Verkamannaflokksins og fráfarandi fulltrúa Breta í framkvæmdastjórn ESB, segist ekki geta annað en hlegið yfir mistökunum en kveðst hafa óskað skýringa hvernig það mátti gerast að landið væri strikað út.

„Wales er á öllum kortum sem máli skipta hjá sambandinu hvað varðar styrkveitingar og þess háttar. Og við erum ekki hluti gleymdrar Evrópu hvað framkvæmdastjórnina varðar, nema á þessu furðulega korti,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert