Sam Fogarino, trommari bandaríska New York-bandsins Interpol, segir hljómsveitina hafa mikinn áhuga á því að spila á Íslandi á næsta ári. Þá standi nefnilega til að leika stöðum sem hún hafi ekki heimsótt áður. Þetta kemur fram í viðtali við Fogarino í Lesbók Morgunblaðsins á morgun, laugardag.
Interpol gaf í vikunni út sína aðra plötu sem heitir Antics og hefur hvarvetna fengið frábæra dóma. Í viðtalinu ræðir Fogarino um plötuna nýju, áhuga þeirra Interpol-liða á tísku og ýmisskonar listsköpun. Þar kemur einnig fram að Sam er mikill aðdáandi Sykurmolanna. „Ég hlustaði mikið á fyrstu plötu þeirra. Mér fannst hún frábær, alveg einstök. Ég sá Sykurmolana spila „Birthday“ í Saturday Night Live og ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum.“