Leitarvaktir vegna kennaraverkfalls

Starfsfólk Reykjavíkurborgar gengur svonefndar leitarvaktir í hverfum borgarinnar þessa vikuna til að ná sambandi við unglinga og koma í veg fyrir óæskilega hópamyndun, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Segir þar að Þetta sé gert í kjölfar ákvörðunar Forvarnarnefndar Reykjavíkurborgar sem samþykkti á fundi sínum þann 18. október sl. að veita kr. 750.000 til að vinna gegn neikvæðum afleiðingum kennaraverkfalls á ungt fólk.

„Ákvörðunin var tekin á grundvelli upplýsinga sem kallað hafði verið eftir frá starfsmönnum Miðgarðs í Grafarvogi, Félagsþjónustunnar í Reykjavík og starfsfólks Íþrótta- og tómstundaráðs um alla borg. Forvarnarnefndin aflaði auk þess upplýsinga frá lögreglunni í Reykjavík sem hefur aukið viðbúnað sinn í hverfum borgarinnar vegna verkfallsins,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að auk leitar- og vettvangsstarfs verði fjármunum Forvarnarnefndar varið til uppbyggilegs hópastarfs með ungu fólki. „Gert er ráð fyrir að í næstu viku liggi stöðuskýrslur úr öllum hverfum fyrir þannig að hægt verði að taka afstöðu til þess hvort frekari aðgerða sé þörf standi verkfall kennara þá enn.“

Forvarnarnefnd Reykjavíkurborgar skipa þau Marsibil Sæmundsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Guðrún Ebba Ólafsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert