Holtasóley fékk flest atkvæði í kosningu um þjóðarblóm Íslands

Holtasóley.
Holtasóley. mbl.is/Jóhann Óli

Holtasóley nýtur mest stuðnings sem þjóðarblóm Íslands en fast á hæla hennar að vinsældum koma gleym-mér-ei og blóðberg. Blágresi nýtur einnig víðtæks stuðnings. Minna fer fyrir stuðningi við hrafnafífu, lambagras og geldingahnapp. Niðurstaða þessara könnunar var kynnt ríkisstjórn í morgun og tók forseti Íslands í dag á móti sérstöku skjali þar sem framangreind niðurstaða er staðfest.

Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Morgunblaðið, mbl.is og Landvernd stóðu að dagana 1. til 15. október s.l. og kynnt var á sérstökum þjóðarblómsfundi í Salnum í Kópavogi í dag að viðstöddum forseta Íslands og landbúnaðarráðherra.

Að ósk verkefnisstjórnar um þjóðarblómið, sem skipuð er fulltrúum fjögurra ráðuneyta, stóðu Landvernd og Morgunblaðið að opinni skoðanakönnun í þeim tilgangi að fá fram viðhorf Íslendinga til málsins. Skoðanakönnunin fór fram á netinu og með póstlögðum atkvæðaseðlum sem birtust í Morgunblaðinu. Þátttakendur voru 7025 og gildir seðlar voru 6919. Við valið var stuðst við raðvalsaðferð þannig að þátttakendum gafst kostur á að forgangsraða blómunum 7 með því að skipa þeim í sæti 1 til 7.

Niðurstaðan var þessi:

Holtasóley 21.943 stig
Gleym-mér-ei 21.802 stig
Blóðberg 21.385 stig
Blágresi 19.243 stig
Hrafnafífa 15.514 stig
Lambagras 15.085 stig
Geldingahnappur 14.597 stig

S.l. vor voru kynntar tuttugu tillögur að þjóðarblómi en eftir nánari umfjöllun í sumar og ábendingar sem fram komu frá skólum landsins var ákveðið að þrengja hringinn um þau sjö blóm sem að framan hafa verið nefnd.

Tilgangur verkefnisins „leitin að þjóðarblóminu” var að komast að því hvort tilgreina megi blóm sem gæti haft táknrænt gildi og sem þjónaði hlutverki sem sameiningartákn og mætti nýta í kynningar- og fræðslustarfi bæði hér á landi og á erlendum vettvangi. Jafnframt er markmið verkefnisins að skapa umræður um blóm og gróður til að auka samstöðu um gróðurvernd.

Verkefnið var að frumkvæði landbúnaðarráðuneytis og hefur verið unnið í samstarfi við menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Landvernd var falin umsjón með framkvæmd. Verkefnisstjórn skipuðu Níels Árni Lund, landbúnaðarráðuneyti, formaður, Vilhjálmur Lúðvíksson menntamálaráðuneyti, Helga Haraldsdóttir samgönguráðuneyti og Ingibjörg Ólafsdóttir umhverfisráðuneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert