Óvíst hver áhrif nýrra kjósenda verða á forsetakosningar

John Edwards, varaforsetaefni demókrata, ásamt börnum sínum Jack og Emmu …
John Edwards, varaforsetaefni demókrata, ásamt börnum sínum Jack og Emmu Claire, í Ohio í vikunni. AP

Í Ohio í Bandaríkjunum, einu þeirra ríkja sem keppni George W. Bush, forseta landsins og demókratans John Kerry fyrir forsetakosningarnar næstkomandi þriðjudag, er hvað jöfnust, hafa um 750 þúsund manns látið setja sig á kjörskrá undanfarið, að því er fram kemur í frétt New York Times.Í fleiri ríkjum, sem talin eru geta skipt sköpum um úrslit, svo sem Iowa, Flórída og Pennsylvaníu, hafa herferðir sem miða að því að fá fólk til þess að setja sig á kjörskrá, borið góðan árangur.

Það eru einkum hópar sem styðja demókrata sem staðið hafa fyrir herferðum af þessu tagi. Fjölgun kjósenda á kjörskrá í ár gæti stuðlað að aukinni kosningaþátttöku. Talið er að þátttakan í ár gæti orðið meiri en hún var árið 1992, þegar hún var með mesta móti.

Í Ohio-ríki eru nú alls um 7,8 milljónir manna á kjörskrá og hafa aldrei verið fleiri. Greinilegt er að flokkarnir telja nýja kjósendur geta haft áhrif á úrslit kosninganna í ríkinu. Það sést meðal annars á auglýsingaskiltum á götum úti, í útvarpsauglýsingum og á fleiri stöðum. „Hvert atkvæði skiptir máli,“ er boðskapur Demókrataflokksins, en repúblikanar hafa hins vegar haldið því fram að ýmislegt sé við skráningu nýrra kjósenda í ríkinu að athuga.

Þeirri spurningu er hins vegar ósvarað hvort hinir nýju kjósendur muni mæta á kjörstað, 2. nóvember. Samkvæmt þeim sérfræðingum sem NYT hefur ráðfært sig við taka nýskráðir kjósendur síður þátt í kosningum en aðrir, vegna þess að þeir eru yngri, óháðari eða hafa minni áhuga á kosningum en aðrir. Venjulega er þátttaka nýskráðra kjósenda minni en 50% að sögn sérfræðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert