14 ára piltur myrti föður, móður og bróður skammt frá Rúðu í Frakklandi

Franska lögreglan segist engar skýringar hafa á því hvers vegna 14 ára drengur skaut föður sinn, móður og fjögurra ára bróður og særði yngri systur sína skotsári í þorpinu Ancourteville-sur-Hericourt í Normandí, skammt frá borginni Rúðu.

Atvikið átti sér stað á heimili piltsins í gærkvöldi. Mun hann hafa gengið um húsið og hleypt af í allar áttir. Fundust lík föðurins, móðurinnar og bróður piltsins liggjandi í blóði sínu í eldhúsinu, svefnherbergi og í stiga milli hæða í endurbyggðu sveitabýli.

Tíu ára systurinni tókst að flýja út og gera nágrönnum viðvart þrátt fyrir að vera alvarlega sár á brjósti og með sködduð lungu.

Lögreglan fann dregninn hálfri annarri stundu seinna en hann hafði flúið af vettvangi á reiðhjóli. Var hann þá mjög úr jafnvægi.

Talsmenn lögreglunnar segjast ekki hafa fengið á því skýringar hvað olli því að drengurinn greip til skotvopnsins og framdi ódæðið. Uppnám er í Ancourteville-þorpinu en íbúar þess eru 218 talsins. „Þetta var venjuleg fjölskylda og engin vandamál henni tengd, ekki heldur börnunum. Eitthvað virðist hafa gerst á sekúndubroti í höfði piltsins,“ segir varaoddviti þorpsins, Francis Leroux, við blaðið Le Parisienne.

Að sögn blaðsins hefur drengurinn reynst ósamvinnuþýður við lögreglu og engin tilfinningamerki sýnt við yfirheyrslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert