Samkeppnisráð hefur ákveðið að beita fjögur olíufélög stjórnvaldssektum vegna ólögmæts verðsamráðs sem stóð yfir í að minnsta kosti tæp 9 ár. Fram kemur á heimasíðu Samkeppnisstofnunar, að Skeljungur er sektaður um 1100 milljónir króna, Olís um 880 milljónir króna og Olíufélagið um 605 milljónir og einnig er Bensínorkan sektuð um 40 milljónir króna.
Fram kemur í tilkynningunni, að samkeppnisráð ákvað að beita stóru olíufélögin þrjú viðurlögum sem nema 1100 milljónum króna á hvert þeirra og segir ráðið að þessi þungu viðurlög endurspegli m.a. ávinning félaganna af ólögmætu samráði þeirra sem varlega sé metið á að minnsta kosti 6,5 milljarða króna á því tímabili sem rannsókn samkeppnisyfirvalda náði til.
Við ákvörðun stjórnvaldssekta var einnig höfð hliðsjón af umfangi samráðsins, brotavilja olíufélaganna, þjóðhagslegt mikilvægi þeirrar vöru sem um sé að ræða og stöðu olíufélaganna á markaði fyrir fljótandi eldsneyti.
Vegna samstarfs við Samkeppnisstofnun í því skyni að upplýsa brot olíufélganna ákvað samkeppnisráð að lækka stjórnvaldssekt Olíufélagsins í 605 milljónir króna, og sekt Olís í 880 milljónir króna. Það er hins vegar mat samkeppnisráðs, að Skeljungur hafi ekki uppfyllt skilyrði til að njóta afsláttar.
Fram kemur í tilkynningu samkeppnisráðs að í höfuðdráttu hafi eftirfarandi falist í hinu samfellda samráði olíufélaganna:
Til að framkvæma þetta samráð hafi olíufélögin átt í tíðum og skipulögðum samskiptum sín á milli þar sem skiptst var á skoðunum og upplýsingum, athugasemdir og tillögur voru gerðar og ákvarðanir teknar. Stjórnendur olíufélaganna tóku þátt í fundahöldum, m.a. hittust forstjórar félaganna iðulega til að skipuleggja og taka ákvarðanir um atriði sem voru hluti af hinu ólöglega samráði. Þá var skipst á orðsendingum og upplýsingum sem vörðuðu samráðið í tölvupósti, símtölum eða símbréfum. Í samantekt, sem ekki sé tæmandi og birt sé í ákvörðun samkeppnisráðs, komi fram um 500 tilvik ólögmæts samráðs á því tímabili sem til rannsóknar hafi verið um verð og verðmyndum, um útboð og gerð tilboða og um markaðsskiptingu.
Samkeppnisráð segir, að olíufélögin beri því við að vegna ónógrar kynningar á samkeppnislögum hafi stjórnendum þeirra ekki verið ljóst að þeir væru að brjóta samkeppnislög. Þá sé því borið við að ríkisafskipti og skipulag á innflutningi og verðlagningu olíuvara á árum áður valdi því að viðskipti og samskipti olíufélaganna í gildistíð samkeppnislaga hafi verið með þeim hætti sem raun beri vitni. Þetta standist ekki skoðun þar sem gögn málsins sýni að skipulega hefur verið reynt að hylma yfir samráðinu. Það hafi m.a. verið gert með orðsendingum um að menn skyldu eyða tölvupósti eftir lestur. Þá átti að afhenda samráðsgögn „yfir borð“ í stað þess að vera með „óþolandi glannaskap“ og senda þau með símbréfi svo dæmi sé tekið.
Í tilkynningu samkeppnisráðs segir, að gögn málsins sýni að olíufélögin höfðu með sér samvinnu um verðlagsmál sem snerta alla framangreinda þætti allt tímabilið sem rannsóknin tók til. Þau höfðu samvinnu um verðbreytingar á bensíni, díselolíu, gasolíu, svartolíu, gasi, smurolíu og fleiri vörum. Þau höfðu samvinnu um að hækka álagningu og bæta framlegð. Félögin höfðu einnig samvinnu um að draga úr afslætti og leggja gjöld á hópa viðskiptavina. Ennfremur höfðu olíufélögin samvinnu við að hafa áhrif á kostnað.
Ýmisskonar annað samráð höfðu félögin til að hafa áhrif á verð þeirra og kostnað. Segir samkeppnisráð, að samráðið hafi gengið svo langt að félögin ráðfærðu sig hvert við annað um jólagjafir til starfsmanna, afslátt til Slysavarnafélags Íslands á Vestfjörðum og styrki í tilefni sjómannadagsins.