Þýskur námsmaður í Ósló greiddi Kerry atkvæði

Kerry á kosningafundi í Flórída í dag.
Kerry á kosningafundi í Flórída í dag. AP

Þýskur námsmaður í Ósló segist hafa greitt John Kerry atkvæði í bandarísku forsetakosningunum eftir að hafa fengið sendan utankjörstaðaatkvæðaseðil frá Bandaríkjunum. Segir hann þetta mega rekja til þess, að hann fékk ökuréttindi í Bandaríkjunum er hann var þar við nám 1997. Bandaríska sendiráðið í Ósló segir það alvarlegan glæp að kjósa í Bandaríkjunum ef maður er ekki bandarísku ríkisborgari.

Norska blaðið Aftenposten greinir frá því á fréttavef sínum í dag að Þjóðverjinn vilji ekki láta nafns síns getið af ótta við að bandarísk yfirvöld refsi honum.

Þjóðverjinn tjáir Aftenposten að hann hafi fengið ökuskírteini í Bandaríkjunum 1997, og er hann hafi nýlega verið þar á ferð hafi hann ákveðið að endurnýja skírteinið. Þá hafi honum verið tjáð að hann væri skráður í bandaríska herinn.

Til að leiðrétta misskilninginn hafi hann farið með þýska vegabréfið sitt og vegabréfsáritunina til bandarískra innflytjendayfirvalda, en þau hafi sagt að þetta tvennt sannaði ekki að hann væri ekki bandarísku ríkisborgari - sem hann hlyti reyndar að vera úr því að hann væri skráður í herinn.

Var honum ráðlagt að skrá sig á kjörskrá og þá myndi koma í ljós með óyggjandi hætti að hann væri ekki bandarískur ríkisborgari. Hann hafi gert það og beðið um að kjörseðill yrði sendur til Evrópu og síðan ekki hugsað meira um málið.

En atkvæðaseðillinn barst og Þjóðverjinn kaus Kerry. „Fyrst ég er skráður í herinn hjá þeim ætti ég að mega kjósa hjá þeim,“ segir hann við Aftenposten.

Talsmaður bandaríska sendiráðsins í Noregi segir að greiði maður atkvæði verði maður að undirrita yfirlýsingu þess efnis að maður sé bandarísku ríkisborgari og skjalafals sé alvarlegur glæpur.

Aftenposten segir pappírana sem Þjóðverjinn hafi undir höndum gera frásögn hans sannfærandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert