Eldgos líklega hafið í Grímsvötnum

Eldgosið í Grímsvötnum 1998.
Eldgosið í Grímsvötnum 1998. mbl.is/Þorkell

Líklegt má telja, að hafið sé eldgos í eða við Grímsvötn, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Veðurstofunni. Tilkynningin er svohljóðandi: „Í framhaldi af vaxandi jarðskjálftum undanfarna daga og sérstaklega í dag hófst samfelld hrina jarðskjálfta og óróa kl. 20.10 í kvöld. Líklegt má telja að þá hafi gos hafist í eða við Grímsvötn. Fylgst verður með framvindunni á Veðurstofunni.“ Samhæfingarstöð almannavarna hefur verið opnuð vegna þessa.

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér fréttatilkynningu:

„Eldgos virðist vera um það bil að hefjast í Grímsvötnum. Undanfarna tíma hefur verið snörp jarðskjálftahrina í Grímsvötnum.

Samhæfingarstöð almannavarna hefur verið virkjuð og Flugmálastjórn, Vegagerðin, lögreglustjórinn í Vík og lögreglustjórinn á Höfn í Hornafirði hafa verið upplýstir um stöðu mála.

Jarðvísindamenn á Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun Háskólans fylgjast með framvindu mála og eru í stöðugu sambandi við Samhæfingarstöð almannavarna.“

Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni, segir að mjög líklegt sé að gosið hafi byrjað upp úr kl. 20. „Þetta getur byrjað undir ís eða vatni, þannig að ekki er víst að það komi strax mjög skýrt fram,“ segir hann.

Ragnar segir að vaxandi jarðskjálftar hafi verið á svæðinu í dag. „Við vorum svo sem alltaf að búast við því að í kjölfar Skeiðarárhlaupsins, sem hefur verið í gangi undanfarna sólarhringa, væru líkur á eldgosi. Þótt það væri ekki nema lítið, enda hefur verið eins og eitthvað hafi verið að búa um sig í Grímsvötnum,“ segir hann.

„Þótt það sé ekki 100% öruggt teljum við rétt, við svona aðstæður, að benda á að eldgos geti verið hafið. Það getur t.a.m. skipt máli upp á flug, þannig að við sendum tilkynningar til allra viðeigandi aðila; m.a. Almannavarna og Flugumferðarstjóra,“ segir Ragnar. Ragnar segir að frekar sé að draga úr hlaupinu í Skeiðará en hitt. „Það hefur verið ansi mikið þar til núna síðustu klukkutímana,“ segir hann.

Að sögn Ragnars er ekki hægt að segja til um hversu stórt gosið sé, eða um staðsetningu þess. „Þó er líklegra að það sé undir vatni eða ís, en að það sé uppi í sjálfu fjallinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka