Eldur mallar jafnt og þétt í Grímsvötnum

Gos í Vatnajökli árið 1996.
Gos í Vatnajökli árið 1996. mbl.is/RAX

„Í stórum dráttum mallar gosið stöðugt áfram og engin breyting er sjáanleg þar á. Það eru allar líkur á þokkalegu gosi. Það hefur verið ósköp jafnt frá því að það komst upp í gegnum íshelluna í gærkvöldi,“ sagði Steinunn S. Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni rétt í þessu um gang mála á eldstöðvunum í Grímsvötnum í Vatnajökli við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is).

Steinunn segir að enn sé ekki nákvæmlega vitað hvar í Grímsvötnum gjósi. Jarðskjálftamælingar bendi þó til að gosið sé heldur norðar en þegar gaus þar árið 1998. „Við bíðum spennt eftir því hvort vísindamenn sem eru á leið til gosstöðvanna með flugvél Flugmálastjórnar staðfesti mælingar okkar,“ segir Steinunn.

„Við höfum engar fregnir enn fengið af öskufalli. Mökkinn leggur til norðnorðausturs og hann breiðir ekki mikið úr sér. Þess vegna er öskufall líklega aðallega í óbyggðum. Við höfum alla vega ekki enn sem komið er frétt af öskufalli í byggð norðaustanlands. Þó getur það átt eftir að breytast þegar fólk fer á stjá og við hvetjum það til að setja hvíta diska utandyra til að kanna hvort aska sé að falla,“ sagði Steinunn.

Hún segir að hæð makkarins hafi verið nokkuð breytileg í nótt.

Hún segir ennfremur að íshellan sé nokkuð þykkari í norðanverðum Grímsvötnum þar sem talið sé að gjósi. Virðist eldurinn hafa verið um klukkustund að komast upp í gegnum helluna. Þar sem jökulhlaup hafi verið í gangi - og enn í vexti er gosið hófst - séu allar rásir fyrir vatnið opnar og megi því búast við að rennsli í Skeiðará aukist mjög fljótlega í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka